Flugeldar og dýrin

desember 29, 2022 2 mínútur að lesa

 Nú er sá tími genginn í garð að mikilvægt er að hafa þónokkur atriði í huga varðandi flugeldanotkun nágranna okkar í kringum áramótin. Dýrin okkar eru misnæm fyrir þessum tíma ársins en á meðan sum dýr liggja róleg eru önnur sem upplifa mismikla vanlíðan. 


Ungviði skynja oft ekki hættur á sama hátt og fullorðin dýr sem getur útskýrt aukna hræðslu á áramótum með ári hverju þó það þurfi ekki að vera, því er gott að hafa í huga að ganga ekki að því vísu að allt gangi eins og árið áður.  


Undirbúningur

Gott getur verið að undirbúa áramótin tímanlega en þegar svo stutt er í flugeldana er mikilvægast af öllu að bregðast sem minnst við þeim með dýrinu og veita dýrinu stuðning eftir þörfum. Ef dýrin okkar upplifa mikla hræðslu eru til ýmsar náttúrulegar leiðir til þess að hjálpa til við að minnka óttann, m.a. í formi næringar (Royal Canin CALM dýralæknafóður fyrir hunda og ketti), ferómón sprey (t.d. adaptil), róandi remedíur (Pet Remedy), Happy Hoodie eyrnaband, Thundershirt vafningur og svo róandi Ttouch strokur til hundsins. Eftir þörfum skrifa dýralæknar upp á kvíðastillandi/róandi lyf sem eru örugg til notkunar á þessum tíma fyrir mjög hrædd dýr. 


Tímanlega

Mikilvægt er að ganga úr skugga um að nokkur atriði séu í lagi, t.d. örmerki dýranna sé auðskannanlegt og rétt merkt á dýraauðkenni (www.dyraaudkenni.is), vera með hálsólar á dýrunum merktar með símanúmeri sem auðvelt er að ná í, nota viðeigandi ljósabúnað og endurskin í öllum göngutúrum (og jafnvel innanhús til öryggis) ef dýrið skyldi sleppa frá okkur. 


yfir áramótin

Heima fyrir eru nokkrir hlutir sem gott er að hafa í huga: Höldum dýrunum inni yfir sprengjutíðina, byrgjum fyrir sýnilega glugga eftir þörfum, höfum kveikt ljós og spila tónlist til þess að dempa hvellina. Best er að bregðast sem minnst við látunum sjálf og veita því sem minnsta athygli. Ef dýrin leita hrædd til okkar er mikilvægt að veita dýrinu stuðning. Gott er að vera með girnilegar heilaþrautir eins og fyllt leikföng, sleikimottur o.s.frv. í boði. 

Fyrir ketti er mikilvægt að tryggja að allir gluggar séu lokaðir en ráðlagt er að halda köttum alfarið inni yfir sprengjutíðina. Kettir leita oft hátt upp í öryggi og því gott að tryggja auðvelt aðgengi að slíkum stöðum. 


Í lokin er svo gott að minna á að vista neyðarnúmer dýralækna á góðan stað, sjálfboðaliðar Dýrfinnu eru sérfræðingar þegar dýr týnast og mikilvægt að hafa samband við þau um leið og dýr týnist til þess að hægt sé að skipuleggja leit sem fyrst. 

Samantekt: 

Theodóra Róbertsdóttir, dýrahjúkrunarfræðingur