Dýrheimar - samfélag hunda og katta og eigenda þeirra
Karfa 0

Fræðslumolar | Næring vinnuhunda

Innihald Innihaldslýsing Innihaldslýsingar Næring Næringargildi Vinnuhundar

Næring vinnuhunda

Vinnuhundar af ýmsu tagi, svo sem leitarhundar, lögregluhundar, fíkniefnahundar, veiðihundar, sleðahundar, fjárhundar og hundar sem fara oft út að hlaupa langar leiðir með umönnunaraðila, til dæmis í hjólaferðir, eru ekki stór hluti af hundaflórunni á Íslandi. Þrátt fyrir að þessir hundar séu ekki margir, þó þeim hafi fjölgað verulega undanfarin misseri, þá er mikilvægt að muna að næringarþarfir þessara hunda eru allt aðrar en venjulegra heimilishunda, hið minnsta þegar þeir eru í sem mestri vinnu.

Í hverju liggur munurinn?

Venjulegur heimilishundur, sem fer út að ganga 1-3 sinnum á dag, braggast oftast best á fóðri sem er 20-35% prótein, 20-25% fita og rest flókin kolvetni, trefjar, náttúrulegar fjöl- og einsykrur, vítamín, steinefni og önnur nauðsynleg næringarefni. Auðvitað eru undantekningar á þessu á meðal allra þeirra ólíku einstaklinga sem finnast á meðal hunda hér á landi sem og erlendis. Vert er að minnast á að hér er talað um prósentur af þyngd fóðurs, ekki prósentur af heildar hitaeiningamagni, eins og venjan er þegar rætt er um mataræði hjá mannfólki.

 

Næringarþörf vinnuhunda er margbreytileg og fer það í raun eftir einstaklingnum, lífsstílnum og vinnunni sem hann vinnur hver næringarþörf hans er.

Dachshund hvolpar - Dachshund Puppies Dogs - Royal Canin

Hægt er að skipta hreyfingu hunda upp í nokkra mismunandi flokka:

Hreyfing með mikilli ákefð sem tekur stuttan tíma – hundar sem taka þátt í sprettkeppnum, til dæmis Greyhound keppnir, Agilitykeppnir, hundar sem eru mjög reglulega látnir hlaupa og sækja bolta, frisbídisk, dummí/bolta út í vatn og slíkt

Hundur sem hreyfir sig með mikilli ákefð í stuttan tíma er ekki með mikið breyttar næringarþarfir samanborið við annan hund af sömu tegund sem hreyfir sig ekki með þessum hætti (hver tegund/einstaklingur hefur þó alltaf sínar sér þarfir). Helstu atriðin sem þarf að muna eftir þegar kemur að þessum hópi eru:

 • Aukin orkuþörf er lítil en þó einhver miðað við einstakling sömu tegundar sem tekur ekki þátt í slíkri hreyfingu.
 • Ekki er ráðlagt að þessir hundar neyti fóðurs innan við 3-4 klst. að mikilli ákefð/keppni.
 • Tryggja þarf aðgengi að vatni en ekki skal leyfa drykkju rétt fyrir erfiða keppni vegna mögulegrar þyngdaraukningar sem hefur neikvæð áhrif á keppnisárangur (gott að miða við ca 30 mín.).
 • Vöðvaáreynslan krefst niðurbrots kolvetna sem eru geymd í beinagrindarvöðvum og lifur hundanna og er niðurbrotið að mestu án aðkomu súrefnis (loftfirrð hreyfing) þar sem ákefðin er það mikil að súrefnið nýtist illa við niðurbrot orkuefna annarra en kolvetna.
 • Eftir keppni er ágætt að bjóða upp á nokkra mola af kolvetnaríku nammi/treat. Það geta til dæmis verið kúlur úr Sporting Life – Agility 4100 fóðrinu frá Royal Canin eða öðru fóðri sem inniheldur hærra hlutfall kolvetna. Ekki er um hefðbundna máltíð að ræða heldur frekar millimál/snakk og þarf að finna út hversu mikið hentar hverjum og einum hundi. Stærri máltíðir ættu ekki að vera í boði fyrr en í fyrsta lagi 60 mínútum eftir hreyfingu með mikilli ákefð eða eftir erfiða æfingu/keppni til þess að koma í veg fyrir vandamál í meltingu. Sporting Life – Agility 4100 fóðrið hentar einnig mjög vel sem almennt fóður fyrir hunda í þessum flokki.

Hreyfing með miðlungs ákefð sem tekur stuttan eða alllangan tíma – hundar sem fara í veiðiferðir, lögregluhundar, fíkniefnahundar, björgunarhundar ofl.

Fóðrun hunda sem hreyfa sig með miðlungs ákefð í stutta til alllangan tíma er töluvert frábrugðin því sem einkennir fóðrun hunda sömu tegundar sem ekki hreyfa sig með þessum hætti. Helstu atriðin sem þarf að muna eftir þegar kemur að þessum hópi eru:

 • Aukin orkuþörf getur verið allnokkur og jafnvel töluverð miðað við einstakling sömu tegundar sem tekur ekki þátt í slíkri hreyfingu. Þetta er þó mjög breytilegt og fer eftir tegund hunds, lífsstíl hans og tegund af vinnu.
 • Í þessum hópi eru hundar sem stunda hreyfingu sem er allt frá því að vera miðlungs erfið í stuttan tíma og yfir í það að vera miðlungs erfið í alllangan tíma þó mögulega með pásu(m) á milli vinnu/hreyfingar.
 • Pointerar, Retrieverar, fjárhundar o.s.frv. eru í þessum hópi og er það æði misjafn hvernig hreyfing þeirra fer fram en vinna þeirra tekur oft langan tíma og því þarf að gera greinarmun á styttri vinnu og lengri.
 • Ef um er að ræða hunda sem eru lengi í vinnu er æskilegt að innihald fitu í fóðrinu sé í réttu hlutfalli við lengd vinnu. Eftir því sem vinnan lengist verður hundurinn að ná í orkuna úr fituforðanum því orkan sem geymd er sem kolvetni í beinagrindarvöðvum og í lifrinni dugar ekki ein og sér til að standa undir orkuþörf hundsins til lengri tíma.
 • Hér hentar til dæmis Sporting Life – Trail 4300 fóðrið (styttri æfingarnar) eða Sporting Life – Endurance 4800 fóðrið ef hundur er lengi í vinnu (marga klst., heilan dag eða 2-3 daga í röð).
 • Gefa má orkuríkt, auðmeltanlegt nammi/treat áður en vinna hefst og á milli vinnuskorpa og hentar Nutritional Energy orkubitarnir frá Royal Canin einkar vel fyrir slíkt. Hægt er að gefa nammið/treat eftir að vinnu er lokið og áður en óhætt er að gefa vinnandi hundi hefðbundna máltíð.
 • Aðgangur að vatni þarf að vera til staðar.
 • Ef fóðrun hunds er breytt til að taka tillit til mismunandi orkuþarfar vegna árstíðabundna sveifla (vinnutímabil vs. hvíldartímabil) þarf að gefa hundinum góðan tíma til að færa sig yfir á vinnuhundafóðrið áður en vinnutímabil hefst (helst > 6 vikur). Sama háttinn má hafa á þegar hundurinn er færður til baka á fóðrið sem notað er á hvíldartímabilinu.
 • Ekki er æskilegt að hefðbundin máltíð sé í boði fyrir en > 1 klst. eftir hreyfingu/vinnu.

Hreyfing sem er með lítilli ákefð en tekur langan tíma, jafnvel marga daga í röð – til dæmis hundar sem taka þátt í sleðakeppnum.

Fóðrun hunda sem hreyfa sig með lítilli til miðlungs ákefð í langan tíma er mjög frábrugðin því sem einkennir fóðrun hunda sömu tegundar sem ekki hreyfa sig með þessum hætti. Helstu atriðin sem þarf að muna eftir þegar kemur að þessum hópi eru:

 • Aukning í orkuþörf er veruleg miðað við einstakling sömu tegundar sem tekur ekki þátt í slíkri hreyfingu. Þetta er þó mjög breytilegt og fer eftir tegund hunds, lífsstíl hans og tegund af vinnu.
 • Í þessum hópi eru hundar sem stunda hreyfingu sem er frekar létt og yfir í það að vera ágætlega erfið og getur tekið mjög langan tíma, meira en dag og jafnvel margir dagar í röð.
 • Efnaskiptin byggja langmest á niðurbroti fitu og því þarf fóðrunin að taka mið af því. Hér þarf aukinheldur að gæta þess að vöðvamassi haldi sér og því þarf próteininnihald að vera aðlagað einnig. Hér hentar Sporting Life – Endurance 4800 fóðrið einkar vel enda bæði prótein- og fituríkt.
 • Gefa má orkuríkt, auðmeltanlegt nammi/treat áður en vinna hefst og á milli vinnuskorpa og henta Nutritional Energy orkubitarnir frá Royal Canin vel fyrir slíkt. Hægt er að gefa nammið/treat eftir að vinnu er lokið og áður en óhætt er að gefa vinnandi hundi hefðbundna máltið.
 • Aðgangur að vatni þarf að vera til staðar.
 • Ef fóðrun hunds er breytt til að taka tillit til mismunandi orkuþarfar vegna árstíðabundna sveifla (vinnutímabil vs. hvíldartímabil) þarf að gefa hundinum góðan tíma til að færa sig yfir á vinnuhundafóðrið áður en vinnutímabil hefst (helst > 6 vikur). Sama háttinn má hafa á þegar hundurinn er færður til baka á fóðrið sem notað er á hvíldartímabilinu.
 • Ekki er æskilegt að hefðbundin máltíð sé í boði fyrir en > 1 klst. eftir vinnu.

Nema annað sé tekið fram í þessum pistli eru almenn viðmið eftirfarandi þegar kemur að vinnandi hundum og fóðrun þeirra:

 • Ekki skal fóðra hund með hefðbundinni máltíð innan við 3 klst. áður en erfið æfing/keppni hefst.
 • Ekki skal fóðra hund með hefðbundinni máltíð innan við 1 klst. frá því að erfiðri æfingu/keppni lýkur.
 • Vatn þarf alltaf að vera aðgengilegt fyrir vinnandi hunda, einkum og sér í lagi ef hlýtt er í veðri (muna að hlýtt fyrir hunda er lægra hitastig en hlýtt fyrir flest mannfólk). Undantekningin á þessu er þegar minna en 30 mínútur eru að æfingu/keppni þar sem ákefð er mikil en í stuttan tíma.

Allt fóðrið sem nefnt er hér að ofan með nafni er orkuríkara en fóður úr almennum línum Royal Canin. Algengast er að fóður frá Royal Canin sé á bilinu 3600-3900 hitaeiningar (kcal) á hvert kílógramm fóðurs en í fyrrnefndu fóðri er kcal á bilinu 4100-4800 pr. kg. Því þarf alltaf að fylgjast með þyngd hunds, þá sérstaklega ef hundurinn er ekki í stífri vinnu/þjálfun allan ársins hring.


Steinar B. Aðalbjörnsson, næringarfræðingur. Upplýsingar um rannsóknir fást gegn beiðni.


Eldri færslur Nýrri færslur