Dýrheimar - samfélag hunda og katta og eigenda þeirra
Karfa 0

Fræðslumolar | Innihaldslýsing eða næringargildi í hunda- og kattafóðri

Afgangar Fóður Fóðurbreytingar Hliðarafurðir Hundar Innihald Innihaldslýsing Innihaldslýsingar Mjöl Næring Næringargildi

Innihaldslýsing eða næringargildi í hunda- og kattafóðri; eru "uppfyllingarefni" í Royal Canin fóðrinu?

Eitt af því sem er mikilvægt að muna þegar kemur að innihaldslýsingu er að hún segir oft á tíðum minna en margur heldur um nákvæmt næringargildi vörunnar. Þegar kemur að næringu hunda og katta og reyndar flestra annarra tegunda, þar á meðal manna, þá er það næringargildið sem skiptir öllu máli.


Tökum dæmi - hundafóðurframleiðandi gefur innihaldslýsingu þar sem eftirfarandi kemur fram: 

Chicken, Corn Meal, Ground Whole Grain Sorghum, Chicken By-Product Meal (Natural source of Chondroitin Sulfate and Glucosamine), Ground Whole Grain Barley, Dried Beet Pulp, Chicken Flavor, Chicken Fat (preserved with mixed Tocopherols, a source of Vitamin E), Dried Egg Product, Potassium Chloride, Fish Oil (preserved with mixed Tocopherols, a source of Vitamin E)........... ofl. innihaldsefni

 

Flestir myndu telja að fyrir hunda sé það jákvætt að kjúklingur sé efstur á listanum yfir innihaldsefni en það segir ekki alla söguna. Hvað er annað með – er þetta allur kjúklingurinn? Er þetta bara kjúklingakjöt? Eru beinin með? Er vatnið með? Er goggurinn og fæturnir með, hakkaðir, muldir, þurrkaðir? Reyndar er góð næring í fótum fugla, gogginum og í fjöðrunum (ríkt til dæmis í liðuppbyggjandi efnum) en það er allt önnur umræða. Hvað með augun, skinnið, meltingarveginn? Það að lista kjúkling fyrst í innihaldslýsingu, jafnvel þó hlutfallið sé tilgreint, segir lítið um nákvæmt næringargildi vörunnar. Innihaldslýsing er þó nauðsynleg til að vita hvaða efni eru í vörunni og þegar forðast skal til dæmis ákveðna óþols- eða ofnæmisvalda, þá kemur innihaldslýsing að góðum notum. Sömuleiðis segir næringargildið ekkert um ofnæmisvalda.


Efni í innihaldslýsingu eru listuð upp eftir þyngd/magni frá þeim efnum sem er mest af í vörunni og enda á þeim efnum sem minnst er af (semsagt minnkandi magn). Kjúklingur sem settur er í fyrsta sæti í innihaldslýsingu getur haft minna af mikilvægum efnum, til dæmis af próteini eða öðrum lífvirkum efnum, samanborið við kjúklingamjöl sem er í fimmta sæti í innihaldslýsingu. Það fer algerlega eftir því hvað það er sem fer í framleiðsluna á kjúklingnum sem listaður er í fyrsta sæti og hvað það er sem fer í kjúklingamjölið sem er í fimmta sæti í innihaldslistanum. Kjúklingamjölið er í raun „þéttur pakki“ af próteinum enda búið að fjarlægja vatnið og fituna og því meira af próteinum í hverju grammi af kjúklingamjöli heldur en í hverju grammi af heilum kjúkling.


Svo er annað sem skiptir líka máli en það er lífgildi (e. bioavailability) næringarefnanna sem er að finna í vörunni/innihaldsefnunum. Stundum eru næringarefnin læst inni í svokölluðum matrixum og er járn sem fæst úr grænmeti dæmi um næringarefni sem er læst og nýtist verr en járn sem finna má í rauðu kjöti og kjúklingi. Svo eru innyfli og aðrar hliðar afurðir (e. by-products) sem oft eru notuð í matar- og fóðurgerð og er lífgildi efna sem finnast í slíkum afurðum oft á tíðum mjög hátt. Þetta verður að taka tillit til þegar innihaldslýsingin er lesin og upplýst ákvörðun tekin um að skoða næringargildi vörunnar ekki á sama tíma. Því getur stundum verið að betra sé að framleiðandinn sé búinn að brjóta niður innihaldsefnið að einhverju leyti niður áður en það er sett í fóðrið til þess að auðvelda dýrinu að melta matinn. Það eykur hlutfall næringarefna (vítamína, próteina ofl.) sem dýrið nær að vinna úr fóðrinu (semsagt hærra lífgildi, e. higher bioavailability). 


Varðandi uppsprettu próteina þá er vert að hafa í huga að tíðni óþols og ofnæmis hjá dýrum er mismunandi hvort uppsprettan er nautakjöt, kjúklingakjöt eða annað kjöt og oft er tíðnin lægst þegar próteinin koma frá afurðum úr jurtaríkinu. Aftur á móti getur lífgildi (bioavailability) próteina verið lægra ef þau koma úr jurtaríkinu (lífgildi fyrir eggjahvítu=100, lífgildi sojapróteina er líklega á bilinu 60-70; lífgildi=100 er best)). Allt þetta verður að taka með í reikninginn þegar vara er eingöngu dæmd út frá innihaldslýsingu. Næringargildi getur verið mjög gott þó svo að einhverjum lítist ekki vel á innihaldslýsinguna.


Tökum dæmi um nokkur innihaldsefni sem nokkuð algengt er að sjá framarlega í innihaldslýsingu á Royal Canin fóðri:


Chicken by-product meal

Frábær uppspretta próteina með háu lífgildi (e. bio-availability), framleitt með sjálfbærnisjónarmið á leiðarljósi (ekki henda neinu heldur nýta allt sem hægt er - https://dyrheimar.is/blogs/fraedsla/afgangar-i-gaeludyrafodri  ).


Chicken fat

Frábær uppspretta fitu en fita, fitusýrur og þríglýseríð eru mjög mikilvæg fyrir orkunotkun, fjölda efnaskiptaferla og mýmarga aðra starfsemi líkamans.


Brown rice

Gott jafnvægi með Brewer‘s rice (sjá þarnæsta innihaldsefni) en Brown rice er tormeltanlegra. Brown rice er stútfullt af vítamínum, steinefnum og trefjum, en trefjar leika lykilhlutverk þegar kemur að góðri meltingu, seddutilfinningu og almennu heilbrigði meltingarvegar. 


Corn

Stútfullt af næringu, þá sérstaklega glúten hlutinn, til dæmis andoxunarefni, A og B vítamín, sink og kopar en sink spilar til dæmis stórt hlutverk í heilbrigðum feldi og kopar í eðlilegum efnaskiptum og líkamsstarfsemi hunda.


Brewer‘s rice

Mjög auðmeltanleg kolvetni þar sem aðgengi að næringarefnum, t.d. próteinum, er mjög gott.


Wheat gluten

Ríkt af steinefnum og stútfullt af próteinum.


Wheat

Ef hundurinn er á annað borð ekki með ofnæmi fyrir hveititegundum (sem er mjög óalgengt) þá er hveiti frábær kostur enda auðmeltanlegt og stútfullt af næringu og auðnýtanlegri orku.


Corn gluten meal

Stútfullt af næringarefnum þá sérstaklega amínósýrum en prótein eru búin til úr amínósýrum. Auk þess er töluvert af andoxunarefnum í glútenhluta kornsins. 


Oat groats (annað heiti er Buckwheat groats)

Góð uppspretta próteina, trefja og kolvetna. Kalíum eru líka í þokkalegu magni en það er mikilvægt fyrir heilbrigða hjartastarfssemi. 


Hugmyndir um að sumt gæludýrafóður innihaldi fyllingarefni/uppfyllingarefni eru stundum byggðar á misskilningi eða vanþekkingu á næringu og efnaskiptum enda ljóst að innihaldslýsingin segir ekki alla söguna um raunverulegt næringargildi, eins og sjá má glögglega hér að ofan. Oft getur þá verið gott að rýna betur í innihaldsefnin til að sjá hver raunverulegur tilgangur þeirra er fyrir næringargildi vörunnar sem á í hlut.


Varðandi hliðarafurðir, e. by-products, þá eru mjög margir framleiðendur matar og fóðurs, sem betur fer, farnir að átta sig á því að það eru mjög mikil verðmæti í afurðum sem til falla í matvæla- og fóður framleiðslu og næringargildi jafnvel meira ef eitthvað er samanborið við aðal vöruna sem framleidd var úr hráefninu. Ég hef áður skrifað um þessar hliðarafurðir hér: https://dyrheimar.is/blogs/fraedsla/afgangar-i-gaeludyrafodri


Það er mikilvægt að muna að hundar eru misjafnir eins og mannfólkið. Það má líka muna að hundar hafa breyst, þ.e.a.s. við höfum breytt þeim undanfarin árþúsund og ekki hvað síst sl. 50 ár. Flest fóður er gott, heilindi á bak við framleiðsluna, þar sem gæludýrin eru sett í fyrsta sæti. 


Royal Canin er þar engin undantekning.


Með vinsemd og virðingu,
Steinar B. Aðalbjörnsson

Næringarfræðingur BSc, MSc. RD, hjá Dýrheimum sf.

Næringarfræðirannsóknir á rottum, svínum og mönnum 1994-2001.


P.s. hér er ein góð frá bandaríska hundaræktarklúbbnum (AKC): https://www.akc.org/expert-advice/nutrition/dog-food-myths/  Myth nr. 4 á sérstaklega við hér. 


Eldri færslur Nýrri færslur

Net Orders Checkout

Item Price Qty Total
Subtotal 0 kr
Shipping
Total

Shipping Address

Shipping Methods