Algengar mýtur varðandi næringu hunda og katta

júlí 07, 2025 8 mínútur að lesa

Heimur gæludýraeigandans getur verið flókinn, sérstaklega þegar kemur að næringu. Fjölmargar mýtur eru til um fóðrun hunda og katta, sem geta haft áhrif á val og ákvarðanir eigenda, stundum með neikvæðum afleiðingum fyrir heilsu dýranna. 


Með vísindalegri nálgun getum við þó gert greinarmun á mýtum og staðreyndum. Í eftirfarandi grein förum við yfir algengar mýtur og leiðréttum með staðreyndum byggðum á rannsóknum og faglegri þekkingu. 

📢 Hvað þarf að hafa í huga við fóðurval hunda og katta?


Góð næring hefur misjafna þýðingu í huga fólks í mismunandi aðstæðum og með mismunandi þarfir en næringarlega rétt samsett máltíð sem er viðeigandi fyrir tegundina sem styður við heilsu, vellíðan og langlífi dýrsins ætti ávallt að vera í fyrirrúmi. Fóðrið þarf fyrst og fremst að veita orku og næringarefni til þess að líkamsstarfsemi sé eðlileg og hvorki sé of mikið né of lítið af næringarefnum veitt. Fóður getur einnig verið mikilvægur þáttur í þjálfun og mótun hegðunar. Eins þarf fóðrið að vera öruggt, fóður á ekki að valda skaða eða alvarlegum veikindum sem þýðir einnig að fóðrið þarf að vera laust við bakteríur eða aðra sýkla. Síðast en ekki síst þarf dýrið svo að borða fóðrið, besta fóður í heimi gerir lítið gagn ef það er ekki aðlaðandi fyrir dýrið. Í sumum tilfellum geta hundar þó æft slæmar venjur éti þeir ekki fóðrið sitt og þegar sífellt nýtt framboð er í boði og eigandi bjóði upp á stöðuga fjölbreytni.

💡 Vissir þú að?

Innihaldslýsing á fóðri segir ekki alltaf til um gæði næringarinnar. Tveir pokar sem sýna „kjúkling“ sem fyrsta innihaldsefni geta haft mjög mismunandi næringargildi eftir vinnslu og meltanleika. Það sem skiptir mestu máli er hversu vel líkaminn nýtir næringarefnin, ekki bara hvaða hráefni eru notuð. Þess vegna er næringargreiningin (e. guaranteed analysis) og jafnvægi næringarefna mikilvægari en að horfa aðeins á innihaldslistann. Rannsóknir sýna að fóður sem er hannað með vísindalegri nálgun getur bætt húð, meltingu, orku og heilsu til lengri tíma.

ALGENGAR MÝTUR Í NÆRINGU HUNDA OG KATTA

MÝTA: KORNMETI ER UPPFYLLIEFNI Í FÓÐRI

Reglulega koma umræður upp sem halda því fram að kornmeti sé „uppfylliefni“ sem sé notað sé til að drýgja fóður. En staðreyndirnar styðja ekki þessa fullyrðingu. Korn eins og hrísgrjón, maís og bygg geta veitt bæði orku (kolvetni), meltanlegar trefjar og ákveðin vítamín og steinefni.

🧠 Hvað segja rannsóknir og sérfræðingar um kornmeti?

  • Korn eru auðmeltanlegur kolvetnagjafi, sérstaklega þegar þau eru hitameðhöndluð (t.d. maís og hrísgrjón).

  • Flókin kolvetni úr kornmeti stuðla að stöðugri blóðsykri og eru minna ofnæmisvaldandi en próteingjafar úr dýraríkinu.

  • Hundar hafa þróast til að melta og nýta sterkju mjög vel sem hluti af því að fylgja manninum og hans matarræði, hundar nýta því kolvetni vel sem orkugjafa.

Þýskur fjárhundur

MÝTA: BEST ER AÐ HAFA FERSKT KJÖT FREMST Í INNIHALDSLISTA

Ferkst kjöt inniheldur uþb. 65-80% vatn sem gerir það þungt í framleiðsluferlinu. Innihaldslisti fóðurs fer eftir hráefnaþyngd í framleiðslu og sé kjötið ferskt þá fer það sjálfkrafa efst í innihaldslistaröð. Það fer því algjörlega eftir framleiðanda, gæðaeftirliti o.s.frv. hvort um betrun sé að ræða eða ekki.


Til þess að bjóða sambærilegt próteinmagn þarf miðað við 20% þurrkað kjöt (e. meat meal) að setja að minnsta kosti 72% ferskt kjöt.


En hvað með kjötmagn í fóðri?


Markaðssetning herjar gjarnan á kjötmagn í fóðri og má sjá áherslu á magn dýrapróteins í fóðri og svo magn kjöts yfir höfuð. Í raun segir næringargildið okkur hversu mikið magn próteins er í fóðrinu sem eru þær upplýsingar sem skipta máli næringarlega séð fyrir dýrið. Við ráðleggjum ykkur þess vegna að leggja áherslu á næringargildi fóðursins.


Er meira kjöt ekki alltaf betra?


Þetta er algeng mýta en mikilvægt er að hafa í huga hve próteinþörf hunda og katta raunverulega er. Kettir þarfnast hærra próteinmagns en hundar en magn próteina sem þörf er á fer einnig eftir nýtanleika þess. Ef nýtanleikinn er góður er þörfin lægri. Þegar líkaminn brýtur niður prótein myndast úrgangsefni eins og urea (þvagefni) sem nýrun sjá um að losa út. 


Hvað er UREA og hvað segir það okkur um prótein í fæðu?

Þegar hundar og kettir fá prótein í fæðunni sinni brýtur líkaminn það niður í amínósýrur sem nýtast til að byggja og viðhalda vefjum, ónæmiskerfi og mörgum lífsnauðsynlegum ferlum. Það sem líkaminn nýtir ekki er umbreytt í urea (þvagefni), sem nýrun skila út með þvagi.


Hjá heilbrigðu dýri er þetta eðlilegur ferill, urea í blóði helst í jafnvægi og endurspeglar bæði próteininntöku og vökvajafnvægi líkamans. Ef prótein er í miklu magni, sérstaklega ef það er illa meltanlegt, getur urea hækkað tímabundið án þess að það gefi tilefni til frekari áhyggna. En til lengri tíma er mikilvægt að próteininntaka sé í réttu magni og gæðum, því óþarfa prótein fer ekki í aukna vöðvauppbyggingu – það fer einfaldlega út með þvagi sem urea.


📢  Af hverju skiptir þetta máli?

  • Urea er gagnlegt mælitæki í blóðprufum til að meta jafnvægi í próteinefnaskiptum.

  • Hágæða nýtanlegt prótein nýtist betur og skilur eftir minna afgangsefni sem þarf að hreinsa út.

  • Of mikil próteininntaka getur aukið urea í blóði ef nýrun ná ekki að vinna úr því. 

  • Þó heilbrigð nýru ráði vel við þetta, er alltaf skynsamlegt að forðast óþarflega mikla próteinyfirhleðslu.

  • Ráðgjöf um rétt fóður frá dýralækni, dýrahjúkrunarfræðingi eða næringarsérfræðingi stuðlar að heilbrigðari og betri heilsu.

Næring er ekki bara magn – heldur líka nýting og gæði. 

Köttur
Álag á nýrun getur haft langtímaáhrif sem og einkenni sem valda vanlíðan.

MÝTA: BEST ER AÐ GEFA KJÚKLING OG HRÍSGRJÓN VIÐ NIÐURGANGI

 

Margt hefur breyst í ráðleggingum við bráðum niðurgangi þar sem dýrið er enn hraust. Áður fyrr var talið að best væri að láta dýrið fasta tímabundið, við tók svo ráðleggingin um að gefa soðinn kjúkling og hrísgrjón þar sem það er tiltölulega auðmeltanlegt. Hins vegar er mikilvægt að hafa í huga það næringartap sem verður til þegar niðurgangur á sér stað og næringarþörfina sem myndast þegar slík veikindi herja á dýrið. 

Að gefa milda næringu sem er auðmeltanleg er enn mikilvægt en við niðurgang tapast nauðsynleg næringarefni sem mikilvægt er að mæta með orkuríkri mildri næringu sem uppfyllir þá þörf sem myndast í slíkum veikindum. 


Svo af hverju er nú mælt gegn kjúklingi og hrísgrjónum?

Kjúklingur og hrísgrjón skortir uþb. 17 nauðsynleg næringarefni til þess að uppfylla næringarþarfir dýra! Eins skortir það fitu sem orkugjafa og ef aðeins kjúklingabringa er notuð þá skortir einnig prótein og kalk. Það er mikilvægt að hafa í huga að dýr með bráðaniðurgang er veikt dýr sem þarfnast sérstakrar umönnunar. 

Mikilvægt er að mæta orkuþörfum veikra dýra og hentar kjúklingur og hrísgrjón því miður ekki þeirri þörf. Í dag er auðvelt að komast í aðgengi að sjúkrafóðri ætluðu fyrir dýr með bráðaniðurgang sem gegnir mun betur því hlutverki að mæta bæði orku- og næringarþörfum dýrs með niðurgang. Kostnaðarlega er einnig hagstæðara að gefa t.d. 10kg hundi eina dós af sjúkrafóðri í stað kjúklings og hrísgrjóna, fyrir utan orku- og næringargildi þess.


En hvað með aukabita og nagþörf?

Á meðan niðurgangur gengur yfir er ráðlagt að gefa sjúkrafóður, góðgerla, taka öll verðlaun og nagbein út til þess að hlúa að meltingunni. Nagbein og aukabitar/verðlaun spila því miður algengari þátt en talið er í niðurgangi og meltingartruflunum.

Saarloos hundur

MÝTA: HUNDAR OG KETTIR GETA EKKI SMITAST AF SALMONELLU


Það virðist algeng mýta að hundar og kettir annað hvort geti ekki fengið salmonellu eða veikist ekki af henni. Því miður er það ekki svo gott, en hundar og kettir geta fengið salmonellu og borið hana áfram í nærumhverfi sitt (líkt og aðrar bakteríur). Lang algengast er að dýrið sé á svokölluðu berastigi þar sem dýrið er sýkt án sýnilegra einkenna. Það er þó mikilvægt að hafa í huga að sýkingin getur valdið allsherjar sýkingu í blóðrás dýrsins án nokkurra einkenna sem getur valdið alvarlegum veikindum á stuttum tíma.


Vissir þú að dýrið þitt getur smitað heimilismeðlimi af Salmonellu?

Smit á Salmonellu og öðrum bakteríum til heimilismeðlima og annarra sem umgangast dýrið getur farið fram við snertingu við dýrið, umgengni við fóðurdalla, svefnpláss dýrsins og í umhverfi við úrgang þess. Það er því mikilvægt að huga að öryggi við fóðrun og að tryggja hreinlæti og eldun fái dýrið eitthvað úr eldhúsi heimilisins.


Bakteríur á við Salmonella spp, E. Coli, Clostridium spp, Campylobacter jejuni, Literia spp osfrv. smitast meðal annars gegnum hrátt kjöt frá dýri til eiganda og umráðamanna ásamt því að ýta undir fjölónæmar bakteríur í mannfólki sem svara ekki sýklalyfjameðhöndlun.

Hættan á sýkingum og sjúkdómum er ekki aðeins fyrir dýrið sem borðar fóðrið heldur einnig öll önnur dýr, fólk og börn sem búa með dýrinu eða umgangast það (gestir, fjölskylda, dýralæknar, þjálfarar o.s.frv.). Þetta er sannarlega lýðheilsuvandamál sem hefur sérstaklega áhrif á þá sem eru með bælt eða bældara ónæmiskerfi (börn og aldraðir einstaklingar). Flest alvarleg tilkynnt tilfelli tengjast Salmonellu og E. Coli sýkingum sem leiða til bráðra sjúkdóma.

Weimaraner
Ráðlagt er að Weimaraner hvolpar séu á hvolpafóðri til 15 mánaða aldurs.

MÝTA: BETRA ER AÐ SKIPTA FYRR AF HVOLPA- OG KETTLINGAFÓÐRI


Þessi mýta er algeng meðal dýraeigenda sem telja að fullorðinsfóður sé "mildara" eða "hitaeiningaminna" og því betra að skipta fyrr yfir á það en ráðlagt er, sérstaklega ef dýrið er stórt og virðist þyngjast hratt. Hins vegar getur þessi breyting haft neikvæðar afleiðingar fyrir þroska og heilsu dýrsins. 


Ófullnægjandi næring fyrir ungviði

Að fóðra ungviði í uppvexti á fullorðinsfóðri getur leitt til vannæringar á næringarefnum sem hefur verið tengt við vaxtatruflanir, beinþynningu og í sumum tilfellum bein- og liðasjúkdóma hjá stórum hundategundum (t.d. osteochondrosis). 


Orkuþéttni og holdafar

Ef eigandi hefur áhyggjur af þyngdaraukningu ætti frekar að endurskoða skammtastærðir og hreyfingu, en ekki færa yfir á fóður sem er ekki hannað fyrir vöxt og þroska. Almennt hækkar fóðurþörf fram að sex mánaða aldri hjá hvolpum og lækkar svo aftur eftir það. 


Næringarþarfir ungviða

Hvolpar og kettlingar eru stöðugt að þroskast fram að fullorðinsaldri sem þarfnast sérstakrar næringar. Helstu þættir sem greina næringarþarfir ungviða frá fullorðnum: 

  • Orkuþörf
    • Ung dýr hafa hærri orkuþörf per kg líkamsþyngdar vegna vaxtar og frumufjölgunar. Þau þurfa fóður með hærra orkugildi en fullorðin dýr, sérstaklega fyrstu mánuðina. Mikilvægt er að aðlaga fóðurskammta með hækkandi aldri ungviðisins.
  • Próteinþörf
    • Hvolpar og kettlingar þurfa hærra magn próteins til þess að byggja upp vefi, vöðva og sterkara ónæmiskerfi.
  • Steinefni og vítamín
    • Sérstaklega mikilvægt er að hlutfall kalsíums og fosfórs sé rétt, ekki of mikið né lítið. Skortur getur leitt til beinþynningar og umfram magn getur valdið beinvandamálum, sérstaklega hjá stórum tegundum.
  • DHA
    • DHA er ómega 3 fitusýra sem gegnir miklvægu hlutverki í heila- og sjónþroska. Hún er sérstaklega mikilvæg í auknu magni á fyrstu mánuðum lífsins.

Hvenær á að skipta yfir í fullorðinsfóður?

Tímasetning fer eftir tegund og stærð ásamt lífeðlisfræðilegum þroska dýrsins 

  • Smá- og meðalstórir hundar: 10-12 mánaða. 
  • Stórar og risastórir hundar: 15-24 mánaða.
  • Kettir: Yfirleitt um 12 mánaða aldur, stærri tegundir á við Maine Coon í kringum 15 mánaða aldur.



Theodóra, dýrahjúkrunarfræðingur

THEODÓRA RÓBERTSDÓTTIR

Theodóra er dýrahjúkrunarfræðingur að mennt og er með Award of merit í næringu smádýra frá BSAVA. Ásamt því er áhugasviðið að fyrirbyggja vandamál og sjúkdóma gegnum umönnun. Theodóra starfar hjá Dýrheimum við ráðgjöf tengda heilsu og næringu í Heilsutékki auk umsjónar fræðsluseturs Dýrheima.

Nánara lesefni og heimildir:


National Research Council (NRC). (2006).
Nutrient Requirements of Dogs and Cats. The National Academies Press.


Case, L. P., Daristotle, L., Hayek, M. G., & Raasch, M. F. (2011).
Canine and Feline Nutrition: A Resource for Companion Animal Professionals (3rd ed.). Mosby.


Axelsson, E., et al. (2013). The genomic signature of dog domestication reveals adaptation to a starch-rich diet. Nature, 495(7441), 360–364. https://doi.org/10.1038/nature11837


Brunetto, M. A., Gomes, M. O., Andre, M. R., Teshima, E., Gonçalves, K. N., Pereira, G. T., Ferraudo, A. S., & Carciofi, A. C. (2010). Effects of nutritional support on hospital outcome in dogs and cats. Journal of veterinary emergency and critical care (San Antonio, Tex. : 2001)20(2), 224–231.

https://onlinelibrary.wiley.com/doi/10.1111/j.1476-4431.2009.00507.x


Alyssa C. Kasiraj, Jaana Harmoinen, Anitah Isaiah, Elias Westermarck, Jörg M. Steiner, Thomas Spillmann, Jan S. Suchodolski, The effects of feeding and withholding food on the canine small intestinal microbiota, FEMS Microbiology Ecology, Volume 92, Issue 6, June 2016, fiw085,  https://doi.org/10.1093/femsec/fiw085


https://wsava.org/wp-content/uploads/2021/04/WSAVA-Global-Nutrition-Toolkit-English.pdf

https://sites.tufts.edu/petfoodology/2021/11/29/whats-the-best-food-for-your-new-puppy/


https://www.aaha.org/wp-content/uploads/globalassets/02-guidelines/2021-nutrition-and-weight-management/resourcepdfs/new-2021-aaha-nutrition-and-weight-management-guidelines-with-ref.pdf