Sumarráð fyrir dýrin! Veist þú hvað þarf að hafa í huga?
maí 20, 2025
3 mínútur að lesa
Sumarið er tími útivistar, birtu og samveru – en það kallar einnig á aukna aðgát fyrir alla sem bera ábyrgð á velferð hunda og katta. Heitt veður getur haft alvarleg áhrif á líkamshita og öndun dýra, sérstaklega hunda sem fylgja okkur út í göngutúra, í ferðalög og í sumarævintýrin.
"Hundar og kettir hafa ekki sömu getu til þess að svitna og við og eru því viðkvæmari fyrir hita"
💡Vissir þú að?
Dýr kæla sig aðallega með munnöndun (hljóðlaus andardráttur með opnum munni). Hitastig yfir 20°C, sérstaklega í beinu sólarljósi, getur orðið hættulegt.
Þegar hitastig er 25°C getur malbikið verið yfir 50°C. Prófaðu með lófanum – ef þú getur ekki haldið hendinni í 5 sekúndur er það of heitt fyrir loppur!
Hitastig inni í kyrrstæðum bíl í sól getur farið yfir 40°C á innan við 10 mínútum – jafnvel með glugga opna.
En hvernig vitum við hvort dýrið er orðið of heitt?
Fyrstu viðvörunarmerkin eru mikill andardráttur og ör öndun. Dýrið getur orðið sljótt, óöruggt á fótum, misst matarlyst og í alvarlegum tilfellum kastað upp eða misst meðvitund. Þá þarf að bregðast strax við – kæla varlega með volgu vatni (ekki ísköldu), færa dýrið í skugga og leita tafarlaust til dýralæknis.
En það eru margar leiðir til að gera sumarið að dásamlegum tíma án þess að stofna velferð dýrsins í hættu. Með því að velja rólega og svala göngutíma, taka með ferskt vatn og jafnvel kælimottu eða blautt handklæði, getum við notið göngutúranna. Margir hundar elska líka vatnsleiki í garðinum eða barnalaug sem þeir mega busla í. Kettir sem eru úti eiga alltaf að hafa aðgang að skugga og fersku vatni – og kettir sem eru innandyra í sólríkum rýmum þurfa líka að fá aðgang að kaldari hvíldarstöðum.
"Umhyggja og aðgát eru lykillinn að góðri sumarsamveru 🐶🐱💛"
Við höfum öll gaman af sól og sumri – og með smá skipulagi og virðingu fyrir mörkum gæludýra okkar, getum við átt öruggar og skemmtilegar stundir saman. Dýr eiga rétt á velferð alla daga ársins, líka þegar veðrið er fallegt – eða einmitt sérstaklega þá!
🌡️ Hitastig og líkamshitastýring dýra
Gæludýr, sérstaklega hundar og kettir, hafa ekki sömu hæfni til að svitna og kæla sig eins og menn. Þau svitna aðallega í gegnum loppurnar og kæla sig með því að anda hratt með opnum munni. Þetta er sérstaklega mikilvægt að hafa í huga þegar hitastigið fer yfir 20°C, því þá getur líkamshiti þeirra hækkað hratt – jafnvel í skugga. Hundar með stutt nef, þykkan feld eða hjarta- og öndunarfærasjúkdóma eru sérstaklega viðkvæmir.
⚠️ Einkenni ofhitnunar og hitaslags
Ofhitnun getur komið hratt og einkennin eru stundum lúmsk. Algengustu merki eru:
Hröð munnöndun
Slappleiki eða doði
Uppköst
Óstöðugleiki
Rauðar eða fölar slímhúðir
Hraður hjartsláttur
Í alvarlegum tilfellum getur dýrið misst meðvitund. Ef þú hefur grun um hitaslag skaltu strax færa dýrið í skugga, bleyta feldinn með volgu vatni og hafa samband við dýralækni.
💦 Vatn, skuggi og kæling
Gakktu úr skugga um að dýrið hafi alltaf aðgang að fersku vatni og skugga – hvort sem það er í garðinum, útilegu eða á ferðalagi. Þú getur útbúið kælimottur, sett blaut handklæði í skugga eða látið vatn renna í skál í göngutúr. Fyrir ketti sem eru inni í heitum húsum getur verið gagnlegt að hleypa þeim í svalari herbergi og opna glugga (með öryggi í huga).
Fyrir þau dýr sem eru slappari við vatnsdrykkju eða hafa minni matarlyst vegna hita er upplagt að nota blautfóður til þess að setja út í vatn og út á fóðrið til þess að stuðla að nægilegri vatnsinntöku.
THEODÓRA RÓBERTSDÓTTIR
Theodóra er dýrahjúkrunarfræðingur að mennt og er með Award of merit í næringu smádýra frá BSAVA. Ásamt því er áhugasviðið að fyrirbyggja vandamál og sjúkdóma gegnum umönnun. Theodóra starfar hjá Dýrheimum við ráðgjöf tengda heilsu og næringu í Heilsutékki auk umsjónar fræðsluseturs Dýrheima.