Hundar velkomnir! Hvað þarf að hafa í huga?

september 09, 2024 3 mínútur að lesa

Hundar hafa lengi fylgt okkur mönnum og gegna þeir í dag orðið mikilvægu hlutverki í samfélaginu, en áætla má að um 33.000 hundar séu á heimilum landsmanna. Með dýrmætum félagsskap þeirra fylgir ábyrgð og með auknu aðgengi þeirra með eigendum sínum er mikilvægt að hafa nokkur atriði í huga til þess að stuðla að jákvæðri upplifun allra.

Ída í viðtali

Aðgengi hunda í samfélaginu

Hundaeigendur hafa lengi barist fyrir auknu aðgengi með hundana sína, hvort sem það var að fá að ganga niður laugarveginn (sem var bannað fram til ársins 2019), fá að nýta almenningssamgöngur, fá að koma með að útrétta, aðgengileg lausagöngusvæði og svo lengi mætti telja. Með mikilli vinnu hefur aðgengi aukist töluvert en er þó enn langt í land þegar við berum okkur við aðrar þjóðir í kring.

Ábyrgð hundaeigenda

Eigendur hunda bera ábyrgð á því að tryggja hundinum viðeigandi þjálfun til þess að ráða við þær aðstæður sem við förum með hundana í. 


Því er mikilvægt að huga að nokkrum hlutum: 

  • Viðeigandi umhverfisþjálfun
  • Valda ekki ónæði í umhverfinu 
  • Hreinlæti - ekki skilja eftir úrgang (þ.m.t. þvag) eða mikinn feld af hundinum á þeim stöðum sem heimsóttir eru, hvorki innandyra né utan í eignir fyrirtækja/annarra í kring.
  • Ekki leyfa hundinum að heilsa fólki eða öðrum hundum nema sérstaklega sé óskað eftir því 
  • Viðeigandi búnaður - mikilvægt er að hafa ávallt stjórn á hundinum, það á einnig við um að hafa viðeigandi lengd á taum (1-2m, enga rúllutauma). 

Virðing fyrir umhverfinu

Það er mikilvægt að sýna því virðingu að ekki eru allir vanir hundum eða finnst þægilegt að vera í kringum þá. Eins er mikilvægt að virða hreinlæti í umhverfinu til þess að stuðla að aukinni ánægju af ferfættu vinum okkar. Sé ekki að hreinlæti gætt innan- og utandyra er auðvelt að vega að ánægju þjónustuaðila að bjóða hundana velkomna með.

Almennar umgengnisreglur

  1. Taumskylda - Hafðu hundinn ávallt í stuttum taum (ekki rúllutaum).
  2. Þjálfun - Gakktu úr skugga um að hundurinn þinn hafi fengið þjálfun í grunnskipunum og félagslegum þáttum.
  3. Virðing - Ekki leyfa hundinum að nálgast fólk eða hunda nema með samþykki. 
  4. Hreinlæti - Ekki leyfa hundinum að pissa utan í húsveggi eða eigur annarra, úti eða inni. Gott er að viðra hundinn á hlutlausum svæðum til að stuðla að auknu hreinlæti og ánægju þjónustuaðila að bjóða hundum með í heimsókn.
  5. Reglur - Kynntu þér reglur á staðnum sem þið heimsækið.
  6. Heilsufar - Tryggðu að hundurinn fái reglulegar bólusetningar og sé laus við pestir sé hann að heimsækja staði með þér.

Þessar reglur hjálpa til við að skapa öruggara og jákvæðara umhverfi fyrir alla, hvort um sé að ræða þjónustuaðila/verslanir, aðra viðskiptavini eða ykkur sjálf.

Matthildur í miðbænum

Hundurinn minn er æstur í kringum aðra

Mikilvægt er að æfa hundinn í auðveldari aðstæðum fyrst um sinn til þess að tryggja vellíðan hundsins og hafa ekki áhrif á þjónustuupplifun annarra einstaklinga á þeim stöðum sem þig langar að heimsækja með hundinn. Ef þú ert í vandræðum með hvar þú ættir að byrja er gott að bóka einkatíma hjá hundaþjálfara.

Hvar er best að staðsetja sig á t.d. kaffihúsi

Best er að kíkja inn og kanna aðstæður án hundsins til að byrja með. Ágætt er að velja staðsetningu út frá því að hundurinn hafi pláss til að liggja og trufli ekki aðra og sé t.d. ekki í gangvegi fyrir öðrum gestum. 

Hvernig undirbúum við hundinn fyrir heimsókn?

Vertu búinn að viðra hundinn vel og losa orku áður en þið heimsækið staði. Tryggðu að hundurinn sé búinn að losa sig vel áður en farið er inn og hafðu í huga hreinlæti gagnvart þjónustuaðila og fyrirtækjum í kring (leyfðu hundinum að losa sig á hlutlausum svæðum en ekki eignum annara). 

Theodóra, dýrahjúkrunarfræðingur
THEODÓRA RÓBERTSDÓTTIR

Theodóra er dýrahjúkrunarfræðingur að mennt og er með Award of merit í næringu smádýra frá BSAVA. Ásamt því er áhugasviðið að fyrirbyggja vandamál og sjúkdóma gegnum umönnun. Theodóra starfar hjá Dýrheimum við ráðgjöf tengda heilsu og næringu í Heilsutékki Dýrheima auk þess að halda fyrirlestra, einkatíma fyrir sýningar og sýnendanámskeið.