Korn eða kornlaust fóður?

nóvember 07, 2024 4 mínútur að lesa

Kornlaust (e. Grain-free) fæði fyrir gæludýr er "trend" sem hefur tekið nokkuð stórt pláss á markaði gæludýrafóðurs. Kornlausa fóðrið lofar gjarnan heilbrigðara og náttúrulegra fæði sem hentar fyrir viðkvæma hunda og sé nær næringu forfeðra sinna. En hvað þarf að hafa í huga við fóðurval og er raunverulega betra að velja kornlaust fóður?


Hvað er korn? Er korn fylliefni?

Korn í gæludýrafóðri er notað sem innihaldsefni vegna þess hversu næringarríkt það er en korn veitir bæði orku og nauðsynleg næringarefni. Korn getur verið í formi maís, hveiti, hafra eða annarra korntegunda. En er korn fylliefni? Svarið við því er nei, þar sem korn inniheldur fjölmörg nauðsynleg næringarefni.


Korn veitir ýmis næringarefni á við:

- Kolvetni: Aðal orkuuppsprettan.

- Prótein: Sum korn eins og hveiti og maís innihalda prótein, sem eru mikilvæg fyrir vöxt og viðhald vefja.

- Fita: Korn er ekki aðal uppspretta fitu, en inniheldur þó holla fitu, maís er t.d. ríkur af línólusýru og amínósýrum en línólusýra er frábær fyrir húð og feldheilsu.

- Vítamín: Korn er gjarnan ríkt af B-vítamínum eins og B1 (þíamín), B2 (ríbóflavín) og B3 (níasín) sem stuðla að heilbrigðum efnaskiptum.

- Steinefni: Korn veitir steinefni á við járn, magnesíum og sink sem eru mikilvæg fyrir ýmsa ferla líkamans en einnig mikilvæg húðheilsu.

- Trefjar: Heilkorn er ríkt af trefjum sem stuðlar að bættri bakteríuflóru og heilsu meltingarvegs.


Korn

Kornlaust er ekki endilega betra

En af hverju má enn finna markaðssetningu sem reynir að stýra eigendum í að velja kornlaust fæði fyrir dýrin sín?


Svarið liggur í misvísandi upplýsingum en almennt er almenningur ekki að lesa rannsóknir, lista endurkallana, tölfræðilegar upplýsingar o.s.frv. Það getur því verið ansi flókið að greina á milli mismunandi upplýsinga á netinu og greina hvað er markaðssetning og hvað er raunverulega rétt miðað við rannsóknir á næringarþörfum hunda og katta.

Hundur að borða

En hvað með kolvetni?

Kornlaust þýðir ekki kolvetnalaust. Af og til má heyra þá umræðu að gæludýr þurfi ekki kolvetni, heldur eingöngu prótein og fitu. Ef fóður skortir kolvetni þá skortir það einnig trefjar sem hafa fjöldamörg góð áhrif á meltingarveg og meltingarheilsu, án trefja má gjarnan sjá aukin vandamál á við niðurgang, hægðatregðu og stíflaða endaþarmskirtla. 

Þegar fóður er kornlaust þarf að nota aðra kolvetnagjafa í stað korns. Kolvetnagjafa á við belgjurtir, sojabaunir, kartöflur eða baunir - þá kolvetnagjafa sem er talið að tengist að einhverju leyti DCM hjartasjúkdómum. 

En hvað með ketti?

Kettir flokkast sem "obligate carnivore" sem þýðir að kjöt þarf að vera í fæðunni en ekki að kjöt sé eina fæðan. Kettir þurfa fæðu með réttu jafnvægi próteina, fitu og kolvetna. Kettir framleiða ensím sem brýtur niður kolvetni og nýta þeir því kolvetnin til orkugjafar og með kolvetnum fá þeir einnig trefjar sem hjálpa meltingunni. Með því velja fóður með korni má einnig tryggja að engin hömlun verði á upptöku táríns, sem er lífsnauðsynleg amínósýra fyrir m.a. hjartastarfsemi katta.

Gæludýrið mitt er með ofnæmi

Ofnæmi eru í raun óeðlileg viðbrögð ónæmiskerfis við ákveðnum efnum. Þegar dýr eru útsett fyrir þessum efnum getur ónæmiskerfið brugðist of hart við sem leiðir til ýmissa einkenna. Algengustu ofnæmisvaldar gæludýra eru eftirfarandi:


Umhverfisofnæmi: Um 70% ofnæma í gæludýrum má rekja til umhverfisofnæmis. Fjölmargir þættir spila hér inn í eins og t.d. ryk, fræ, mold, frjókorn, gras o.s.frv.

Fóðurofnæmi: Um 30% ofnæma má rekja til fóðurofnæmis, helstu orsakavaldar eru þá próteingjafi frá kjötuppruna og er því ráðlagt að fóðra gæludýrið (í amk. 6-8 vikur) á vatnsrofnum próteinum eða gefa algjörlega óþekktan próteingjafa til þess að kanna hvort einkenni fari eða ekki. Korn er því mjög sjaldgæfur ofnæmisvaldur.


Ef þig grunar ofnæmi hjá dýrinu þínu ráðleggjum við þér að hafa samband við dýralækninn þinn.

Samantekt

Við hvetjum eigendur til að taka upplýsta ákvörðun byggða á rannsóknum varðandi fóðurval og heilsu gæludýra sinna. WSAVA hefur gefið út góðan spurningarlista fyrir eigendur til fóðurframleiðenda sem við hvetjum ykkur til að skoða - sjá HÉR.

Korn inniheldur fjölmörg nauðsynleg næringarefni fyrir eðlilega líkamsstarfsemi hunda og katta.

Korn hamlar ekki upptöku táríns í líkamanum og styður þannig við heilbrigða hjartastafsemi.

Korn inniheldur bæði orku og trefjar fyrir heilbrigða meltingu og líkamsstarfsemi.

Theodóra, dýrahjúkrunarfræðingur

THEODÓRA RÓBERTSDÓTTIR

Theodóra er dýrahjúkrunarfræðingur að mennt og er með Award of merit í næringu smádýra frá BSAVA. Ásamt því er áhugasviðið að fyrirbyggja vandamál og sjúkdóma gegnum umönnun. Theodóra starfar hjá Dýrheimum við ráðgjöf tengda heilsu og næringu í Heilsutékki Dýrheima auk þess að halda fyrirlestra, einkatíma fyrir sýningar og sýnendanámskeið. 

Algengar spurningar

hvernig er best að huga að fóðurskiptum

Ráðlagt er að taka að minnsta kosti 4 daga í fóðurskipti þar sem skipt er hlutfallslega smám saman yfir á nýtt fóður. Fóðurskipti mega fara fram á lengri tíma fyrir viðkvæmari dýr.

Eru einhverjar hættur á kornlausu fóðri?

Kornlaust fóður ("Grain-free") hefur verið tengt við hjartasjúkdóminn DCM. Grunur leikur á að kolvetnagjafar sem notaðir eru í stað korns hamli upptöku táríns þó að það sé ekki orðið ljóst með hvaða hætti. Vegna þessa er ráðlagt að nota fóður sem styðst við rannsóknir og uppfyllir næringarþarfir án takmarkana.

En dýrið mitt er með ofnæmi fyrir korni

Við ráðleggjum alltaf samtal við dýralækninn þinn ef um ofnæmi er að ræða. Hins vegar er gott að hafa í huga að ofnæmi fyrir korni getur verið erfitt að greina nema gefa áfram sama próteingjafa og taka eingöngu kornið út. 

Hvaða fóður á ég að velja?

Mikilvægt er að velja fóður fyrir dýrið með tilliti til aldurs, heilsu, tegundar og að mæta þörfum einstaklingsins. Hafðu samband við dýralækni eða dýrahjúkrunarfræðing fyrir nánari ráðgjöf.

Tengdar greinar