september 08, 2023 3 mínútur að lesa
Vinnuhundar eru m.a. þeir hundar sem inna af “loppum” verkefni fyrir mannfólkið, t.d. fuglaveiðar, björgunarstörf, sækivinna og rekstur/smölun á fé o.s.frv.. Slíkri vinnu má skipta í mismunandi flokka eftir tíðni vinnunnar, ákefð og lengd hennar, en næringarþarfir hundanna spilast eftir slíkum þáttum og er nauðsynlegt að hafa í huga til þess að hámarka afköst og vellíðan hundanna.
Hundar í mikilli hreyfingu og þjálfun hafa aðrar næringarþarfir en meðal hundur, en veðurfar, ákefð og lengd þjálfunar spila inn í hversu ákjósanleg hlutföll próteina, fitu og kolvetna skulu vera. Í gífurlegum kulda eða miklum hita er þörf á enn orkuríkara fæði. Auk þess spilar einstaklingsþörf einnig stóran þátt, en stærð hundsins, tegund, feldgerð, líkamlegt form, streituþröskuldur ásamt fleiri þáttum hefur mikið um að segja hvernig best sé að fóðra vinnuhund í þeirri vinnu sem framundan er.
Líkamleg afköst krefjast sérstakrar áherslu á jafnvægi í þremur stærri flokkum næringarefna, en slík hlutföll fara eftir áðurnefndum áhrifaþáttum eins og tegund þjálfunar, veðurfars o.s.frv.
Fita: Aðal eldsneytið fyrir áreynslu sem varir í nokkrar mínútur.
Prótein: Stuðlar að endurnýjun vöðvafrumna og kemur í veg fyrir blóðleysi hunda í mikilli vinnu.
Meltanleg kolvetni: til enduruppbyggingar glýkogenforða í lifur, lifrarrásum og vöðvum.
Andoxunarefni: Mikilvægt er að næring vinnuhunda innihaldi hærra magn andoxunarefna til þess að koma í veg fyrir oxunarálag á frumurnar sem myndast við aukið álag.
Samspil þjálfunar, næringar og hvíldar er lykillinn að góðri heilsu og velgengi hundsins í krefjandi aðstæðum.
Fita
Hærra hlutfall fitu er mikilvægt vegna þess hve hár hitaeiningafjöldi er á hvert gramm, en fita inniheldur um 9kcal á hvert gramm sem er mun hærra en aðrir orkugjafar. Vegna þessa er mikilvægt að hlutfall fitu sé hærra fyrir hunda sem stunda mikla vinnu til þess að takmarka að auka þurfi fóðurskammt verulega til þess að uppfylla þarfir hundsins.
Plasmafríu fitusýrur líkamans aukast eftir nokkurra vikna fóðrun á slíku vinnuhundafóðri, þá eykst einnig rúmmál hvatbera í vöðvatrefjum og eykur hámarks upptöku súrefnis í líkamanum. Fóður ríkt af fitu hægir einnig á einkennum slens og þreytu eftir krefjandi vinnuframlag hundsins.
Prótein
Prótein er aðeins um 10% af heildar orkugjöf í vinnu, en þó er prótein gífurlega mikilvægt í næringu vinnuhunda til þess að vinna að endurheimt vöðvafrumna og koma í veg fyrir blóðleysi. Magn próteins í fæðu fer svo eftir gæðum próteinanna og hversu vel próteinin uppfylla amínósýruþörf hundsins.
Meltanleg kolvetni
Hundar nota kolvetni eins og eldsneyti við áreynslu, því er mikilvægt að fóðrið innihaldi meltanleg kolvetni til þess að viðhalda geymslu glýkógens í líkamanum í vöðvum og lifur hundsins, en uþb. 2 tíma áreynsla getur tæmt slíkar birgðir sé ekki nægilega hlúð að þeim við fóðrun.
Vatn
Nauðsynlegt er að tryggja aðgang að fersku hreinu vatni - eitthvað sem má ekki gleymast! Á áreynslutímabilum getur verið gott að setja vatn út á fóðrið til að tryggja nægilega vökvainntöku og eins tryggja strax aðgang að hreinu vatni eftir átök.
Fóðrið verður að vera:
Að þjálfa og fóðra vinnuhund getur verið skemmtilegt verkefni þegar árangurinn verður sjáanlegur. En til þess að ná árangri getur verið gott að halda þjálfunar og næringardagbók, í slíkri dagbók er gott að halda utan um heilsufarstengdar upplýsingar líkt og hvíldarpúls og þyngd hundsins, hvíldardaga, keppnisdaga o.sfrv.
Við hvetjum ykkur svo til þess að huga að góðum sjúkrakassa fyrir hundinn, fræðslu um helstu aðstæður sem upp geta komið og fyrstu viðbrögð við þeim.
Sjá hér góð ráð varðandi sjúkrakassa hundsins.
Nánara lesefni:
https://pubmed.ncbi.nlm.nih.gov/24951343/
https://pubmed.ncbi.nlm.nih.gov/22005417/
Dog handler's manual - optimising the performance of the working dog
Theodóra er dýrahjúkrunarfræðingur að mennt og er með Award of merit í næringu smádýra frá BSAVA. Ásamt því er áhugasviðið að fyrirbyggja vandamál og sjúkdóma gegnum umönnun. Theodóra starfar hjá Dýrheimum við ráðgjöf tengda heilsu og næringu í Heilsutékki Dýrheima auk þess að halda fyrirlestra, einkatíma fyrir sýningar og sýnendanámskeið.