Sækist kötturinn stöðugt í að losa þvag en gengur erfiðlega? Pissar kötturinn á óæskilega staði eins og mottur, sængur eða jafnvel sófa? Hér fyrir neðan má læra aðeins meira um hvaða áhættuþættir liggja að baki, lært um einkenni þvagfæravandamála, mikilvægi dýralæknaheimsókna og hvað sé hægt að gera til þess að fyrirbyggja enn frekari vandamál.
einkenni þvagfæravanda í köttum
Tíðar ferðir á kattaklósettið
Tíðar ferðir eru meðal þeirra einkenna sem eigendur taka yfirleitt eftir, ferðirnar geta bæði verið stuttar eða tekið lengri tíma en venjulega.
Erfiðleikar við þvaglát
Sýni kötturinn einkenni eins og t.d. mikla vöðvaspennu við þvaglát eða gefi frá sér hljóð þegar hann er í kassanum er mikilvægt að hafa samband við dýralækni sem allra fyrst. Sérstaklega eru högnar í áhættuhóp fyrir þvagstoppi sem þarf að grípa inn í strax ef svo ber undir.
Þvaglát á óæskilega staði
Þvaglát á staði eins og rúm, sængur, sófa eða aðra staði er meðal einkenna þvagfæravandamála - athugið að stress getur einnig orsakað blöðrubólgu og spilað inn í val á staðsetningum.
Óeðlilega mikil þrif á kynfærasvæði
Kettir eru almennt duglegir að sjá til þess að halda sér hreinum, en roði á þvagfærasvæði, hárlausir blettir á kvið o.s.frv. eru einnig meðal einkenna þvagfæravandamála.
Óeðlilegt þvag
T.d. blóð í þvagi, breytt lykt/sterkari lykt o.s.frv.
Hvað veldur?
Fjöldi orsaka geta staðið að baki vandamálum í neðra þvagfærakerfi katta, en við nefnum hér nokkra algengar orsakir:
Kristallar - Þvasteinar
Kettir geta myndað kristalla og þvagsteina í þvagblöðrunni, algegnustu þvagsteinarnir eru strúvít og kalsíum oxalat steinar. Þvagsteinar eru uþb. 10-15% tilfalla af vandamálum í neðra þvagfærakerfi.
Bakteríur
Blöðrubólga af völdum baktería eru algengasta orsök vandamála í neðra þvagfærakerfi dýra - en er þó ekki algeng í í köttum. Helst má finna bakteríur sem orsök blöðrubólgu í eldri köttum en bakteríuvaldandi blöðrubólga er um 5-15% af tilfellum þvagfæravandamála.
Óþekkt ástæða
Oft kallað “Idiopathic cystits” - má telja að beri ábyrgð á um 60-70% tilfella þvagfæravandamála. En í þessum tilfellum finnst ekki orsök fyrir blöðrubólgu eða vandamálum í neðra þvagfærakerfi. Streita getur spilað stóran þátt í myndun blöðrubólgu og er því mikilvægt að greina streituvalda á heimilinu séu tíð þvagfæravandamál til staðar.
Royal Canin - Calcium Oxalate
Hvernig fer greining fram?
Almennt ef grunur er um vandamál í þvagfærakerfi er mikilvægt að rannsóknir hjá dýralæknum séu framkvæmdar til þess að staðfesta grun og hægt sé að meðhöndla vandamálið rétt.
En hvaða rannsóknir er hægt að framkvæma?
Þvaggreining
Þvag er skoðað undir smásjá, greint á stixi og jafnvel sent út til bakteríugreiningar. Þvagprufa er alla jafna tekin steríl með fíngerðri nál beint úr þvagblöðru.
Ómskoðun
Í ómskoðun má stundum greina þvagsteina, þykkt blöðruveggs og ástand þvagblöðru ásamt magni þvags í þvagblöðrunni.
Röntgen
Röntgemyndir hjálpa til við að útiloka t.d. þvagsteina sem geta verið í þvagblöðu og/eða þvagleiðara.
Með því að greina orsök getur dýralæknirinn meðhöndlað orsökina, oft í samvinnu með eiganda, en þörf getur verið á lyfjagjöf, fóðurskiptum eða jafnvel finna streituvalda á heimilinu til þess að stuðla að bættri líðan kattarins.
Almennt - hvað getum við gert sem eigendur?
Almennt er mikilvægast að fylgja ráðum dýralæknisins varðandi meðhöndlun og næstu skref. Hinsvegar eru hér fyrir neðan nokkur ráð sem gott er að hafa í huga:
Ræðum næringu við dýralækninn okkar, sum tilfelli þvagfæravandamála krefjast breytt matarræðis
Tryggjum aðgang að hreinu vatni og fjölgum vatnsskálum
Gott getur verið að bæta við auka sandkassa og tryggja ró í kringum sandakassa kattanna
Ráðlagt er að hreinsa mjög ört úr sandkössum og skipta alveg um sand vikulega eða oftar á meðan veikindi standa yfir
Takmörkum allar breytingar í rútínu eins og hægt er
THEODÓRA RÓBERTSDÓTTIR
Theodóra er dýrahjúkrunarfræðingur að mennt og er með Award of merit í næringu smádýra frá BSAVA. Ásamt því er áhugasviðið að fyrirbyggja vandamál og sjúkdóma gegnum umönnun. Theodóra starfar hjá Dýrheimum við ráðgjöf tengda heilsu og næringu í Heilsutékki Dýrheima auk þess að halda fyrirlestra, einkatíma fyrir sýningar og sýnendanámskeið.