desember 11, 2024 4 mínútur að lesa
Áramótin eru tími fagnaðar, en þau geta verið áskorun fyrir fjölmörg dýr og dýraeigendur.
"Plútó er frábær hundur sem fær alla í kringum sig til þess að brosa. Hann elskar göngutúra, leiki og samveru með fjölskyldunni sinni. En þegar ármótin nálgast, breytist margt. Hann verður stressaður, skjálfandi og reynir að fara í felur við hvern hvell sem heyrist, með tilheyrandi vanlíðan fyrir Plútó og áhyggjum eigenda hans."
Plútó, líkt og margir hundar og kettir, þola illa hávaðan og ljósadýrðina sem fylgir áramótunum. Matarlyst minnkar, svefninn minnkar og óöryggið stendur yfir jafnvel dögum áður en sprengingarnar hefjast. Það er erfitt að sjá ferfætta vin sinn í slíkri vanlíðan. Ekki örvænta ef þú kannast við lýsingarnar um líðan Plútó, hér að neðan koma hagnýt ráð frá Theodóru, dýrahjúkrunarfræðing og Alberti, hundaþjálfara Dýrheima sem gætu nýst vel.
Mikilvægt er að undirbúa sig fyrir hátíðarnar bæði varðandi heimilið, líðan dýrsins og svo öryggisráðstafanir.
Á meðan á áramótunum stendur er sérstaklega mikilvægt að dýrin séu auðkennileg ef þau fara á flakk eða slippast út af óvart. Gakktu úr skugga um að hundurinn eða kötturinn sé rétt skráður hjá sveitarfélagi og að örmerki sé rétt skráð á dýraauðkenni eða í það minnsta hálsól með endurskini og merkispjaldi. Þetta tryggir að það sé auðveldara fyrir þig eða aðra að finna dýrið ef það ratar frá heimili sínu. Eins getur verið mikið öryggisatriði fyrir mjög hrædda hunda að setja á þá staðsetningartæki.
Hafðu í huga að hræddur hundur eða köttur er mjög fljótur að skjótast framhjá og út um dyr. Gott er að halda hurðum og gluggum heimilisins læstum og jafnvel setja grind fyrir útidyrahurðir ef ekki er hægt að loka forstofu af með öðrum hætti. Sé gestagangur er einnig góð hugmynd að hafa hundinn í taum inni fyrir.
Á netinu má finna ótal myndbönd þar sem flugeldahljóð eru spiluð. Gott er að venja dýrin við hljóðin í daglegri rútínu og leik á heimilinu með því að spila hljóðin fyrst lágt og hækka svo smám saman. Búa má til jákvæða tengingu með leik eða tengja við samveru við eiganda. Hér er hugmynd af myndbandi með raunverulegum hljóðum, smelltu HÉR.
Það er einnig mikilvægt að halda daglegum rútínum og venjum, eins og venjulegum göngutúrum og útivistartíma, en reyna að forðast útivist á þeim tímum þegar sprengingar eru í gangi. Ef dýrið er mjög hrætt, aðlagaðu rútínu og örvun að þörfum þess, hundur í mikilli hreyfingu sem fær svo minni hreyfingu vegna hræðslu þarf töluvert meiri heilaörvun heima fyrir. Það er einnig mikilvægt að refsa alls ekki dýrinu ef það sýnir áhyggjur eða ótta heldur styðja það og halda ró. Dýrin lesa oft tilfinningar okkar og ef þú ert rólegur sjálfur, getur það hjálpað til við að róa þau.
Mikilvægt er að dýrið á heimilinu eigi góðan griðarstað á heimilinu langt frá útidyrahurð og stórum gluggum, dæmi um slíkan stað er t.d. búr og/eða bæli. Hvetjum dýrið til þess að leita sér skjóls og taka hvíldina sína á þessum griðarstað dagana fram að áramótum. Yfir áramótin sjálf getur verið gott að hafa ljós kveikt inni og dregið fyrir glugga til þess að draga úr ljósblossum inn til dýranna.
Sérsniðið fóður getur komið að góðu gagni fyrir hrædd dýr. CALM vörulína Royal Canin inniheldur vatnsrofna mjólkurpróteinið Alpha-S1 kasín trypsík hýdrolýsat ásamt amínósýrunni L-Tryptófan til þess að styðja við tilfinningalegt jafnvægi dýrsins. Fóðrið styður einnig við meltingarveg sem getur orðið viðkvæmur undir streitu með auðmeltanlegum próteinum og góðgerlafæðu.
Ýmsar leiðir eru til staðar til þess að hjálpa allra hræddustu dýrunum. Bæði má nota náttúrulegar leiðir eins og t.d. adaptil/feliway þar sem náttúruleg ferómón eru til þess að hjálpa dýrinu að ná meiri ró. Eins hafa verið hannaðir strokkar á við Thundershirt og TTouch aðferðir sem hjálpa sumum dýrum gegn hræðslu með því að veita léttan þrýsting við líkama dýrsins. Eins má fá svokölluð HappyHoodie eyrnabönd fyrir dýr sem hjálpa til við að dempa hljóð í umhverfi sínu.
Sum dýr vinna betur úr hræðslu sé þeim hlýtt og geta því t.d. kápur hjálpað til við að draga úr streitueinkennum.
Í sumum tilfellum getur lyfjagjöf hjálpað, en til eru mismunandi lyf með mismunandi virkni en mikilvægt er að bóka tíma hjá dýralækni til þess að ræða hvort lyfjagjöf henti.
Hreyfing dregst yfirleitt saman hjá mörgum hundum og köttum yfir áramótin vegna hræðslu og anna heimilisfólks. Mikilvægt er að sinna þó áfram þeirri örvun sem dýrið þarf til þess að líða vel, en dýr sem fær að vinna verkefni framleiðir hærra magn serótóníns sem framkallar vellíðunartilfinningu.
Dæmi um slíkar þrautir geta verið t.d. þefmottur, sleikimottur, fyllt kong, lyktarþrautir inni á heimili, hlýðniæfingar o.s.frv.
Theodóra er dýrahjúkrunarfræðingur að mennt og er með Award of merit í næringu smádýra frá BSAVA. Ásamt því er áhugasviðið að fyrirbyggja vandamál og sjúkdóma gegnum umönnun. Theodóra starfar hjá Dýrheimum við ráðgjöf tengda heilsu og næringu í Heilsutékki Dýrheima auk þess að halda fyrirlestra, einkatíma fyrir sýningar og sýnendanámskeið.
Albert er hundaþjálfari að mennt og hefur starfað sem slíkur frá 1993. Albert hefur sótt mýmörg námskeið til endurmenntunar, þjálfað ófáa hunda í hin ýmsu verkefni og próf, skapgerðarmetið hundruði hvolpa ásamt því að vera prófdómari í spora- og hlýðniprófum á vegum HRFÍ. Albert starfar hjá Dýrheimum við hundaþjálfun, hvolpanámskeið, hlýðninámskeið, einkatíma auk sérhæfðra námskeiða hverju sinni.