Er tannheilsa dýrsins í lagi? Mikilvægi tannheilsu og fyrstu ummerki vandamála

janúar 22, 2025 5 mínútur að lesa

Jónas settist niður með kaffibolla einn sunnudagsmorguninn og tók eftir því að Loki borðaði ekki fóðrið sitt eins og vanalega. Þegar hann kom til hans fannst Jónasi andardrátturinn heldur lyktarmikill. 

Jónas hringdi í dýralækninn sinn til þess að bóka skoðun. Hann hafði ekki spáð í tannheilsu Loka né hversu mikilvægt það er að fyrirbyggja vandamál áður en þau þróast í alvarlegri sjúkdóma. Dýralæknirinn útskýrði að tannheilsa dýra væri ekki einungis spurning um minni matarlyst eða slæma lykt úr munni heldur einnig að tannheilsa hafi bein áhrif á almenna heilsu dýranna. Það er  ekki oft fjallað um hver áhrif tannvandamála geta verið. Tannsteinn og/eða tannholdsbólga geti valdið sársauka, sýkingum og jafnvel haft áhrif á hjarta- og lifrarheilsu ef ekkert er gert.


Í þessari grein skoðum við hvernig þú getur verndað tannheilsu dýrsins þíns, hvers vegna fyrirbyggjandi aðgerðir eru mikilvægar og hvaða skref þú getur tekið til að tryggja dýrinu langlífi og vellíðan.


Af hverju ættum við öll að huga að fyrirbyggjandi umönnun tanna?

  1. Sársauki og vanlíðan: Tannvandamál geta valdið dýrum miklum sársauka og gert daglegar athafnir eins og að borða, sársaukafullar (jafnvel þó þau haldi áfram að borða!).

  2. Heilsubrestur: Bakteríur í munni geta dreifst um blóðrásina og haft áhrif á mikilvæg líffæri eins og hjarta, lifur og nýru.

  3. Lífsgæði: Heilbrigðar tennur og tannhold gera hundum og köttum kleift að borða án vandamála og stuðla að heilbrigðara lífi.

  4. Langtímaáhrif: Reglubundin tannhirða getur dregið úr áhættu á tannvandamálum og kostnaðarsömum aðgerðum í framtíðinni.


Köttur að slaka á
Vissir þú að andfýla er eitt fyrsta merki um tannvandamál?

Hver eru einkenni tannvandamála?

Sýnileg einkenni tannvandamála eru m.a.:


Andfýla

Tannsteinn

Roði í tannholdi

Bólgur við andlit

Brotnar tennur

Minnkuð matarlyst

Vöðva og þyngdartap


Tannsteinn

Athugið að ef einkenni eru sýnileg er mikilvægt að leita ráða hjá dýralækni varðandi meðhöndlun.


Tannsjúkdómar og tengsl við almenna sjúkdóma

 

Tannsjúkdómar geta ýtt undir hina ýmsu sjúkdóma sem herja á líffærakerfi hunda og katta. Þegar dýrið þróar með sér tannsjúkdóm byggjast upp bakteríur sem lifa í munni dýrsins við tennur og tannhold. Þessar bakteríur eiga greiðan aðgang út í blóðstreymi dýrsins sem getur haft gífurleg áhrif á heilsu hans. Þau líffærakerfi sem eru viðkvæmust fyrir slæmri tannheilsu eru m.a. nýru, lifur og hjarta.

Fjögur stig til þess að stuðla að góðri tannheilsu hunda og katta

 

  1. Takmarka myndun nýrra tannsýkla. Fái tannsýklar að liggja á tönninni myndast tannsteinn
  2. Finndu leið sem hentar dýrinu þínu til þess að takmarka myndun tannsýkla (t.d. tannburstun, fóðurval, tannhreinsun)
  3. Finndu fóður af viðeigandi gerð og áferð sem hjálpar til við að stuðla að bættri tannheilsu
  4. Vertu á undan áætlun og bókaðu reglulega skoðun eða tannhreinsun hjá dýralækni áður en tannheilsan verður að vandamáli

Mikilvægt er að huga að tannheilsu í daglegri umönnun. 


  • Nagþörf: Þegar velja á nagbein er góð regla er að beinið mýkist við nag. Athugið að nagbein stuðla ekki að hreinsun tanna nema um sé að ræða sérstök tannhreinsi bein. Fylltir gúmmíboltar og sleikimottur henta best fyrir tannheilsu dýranna til þess að uppfylla nagþörf. 
  • Leikur: Gott er að hafa í huga hvers konar efni eru í leikföngum og boltum t.d. geta tennisboltar raspað niður glerung hunda fái þeir að leika mikið með þá. Fyrir boltaleik er best að velja t.d. gúmmíbolta fyrir tannheilsuna.

Hvað annað getur haft áhrif á tannheilsu?


Það eru nokkrir þættir sem geta ýtt enn frekar undir það að hundur eða köttur myndi meiri tannstein en eðlilegt þykir.


  1. Tegund og stærð: Smærri hundar ásamt hundum og köttum með stutt trýni eru í meiri áhættu á tannsteinsmyndum og tannvandamálum.
  2. Aldur: Eldri dýr eru gjarnan með viðkvæmari tennur og mynda frekar tannstein.
  3. Ónæmiskerfi: Heilbrigt ónæmiskerfi stuðlar að heilbrigðari tannheilsu.

Af hverju á ávallt að leita til dýralækna þegar kemur að tannheilsu? 


Tannheilsa dýra getur verið flókin. Dýralæknar hafa sérþekkingu í heilsu dýra og hafa sumir hverjir sérhæft sig sérstaklega í tannheilsu. Þeir hafa nauðsynleg tæki og tól til þess að meta ástand tanna og tannholds á nákvæmari hátt og greint atriði sem erfitt er að sjá með berum augum t.d. tannholdsbólgu, tannstein undir tannholdi, skemmdir og/eða undirliggjandi sjúkdóma. 


Að auki veita dýralæknar einnig faglegar leiðbeiningar um tannhirðu og vali á viðurkenndum vörum. 



Hvernig burstum við tennur dýrsins?

Tannbursti og tannkrem

Haltu við andlit dýrsins á öruggan og mildan hátt

Settu örlítið tannkrem ætlað dýrum á tannburstann eða fingurinn til þess að kynna dýrið fyrir tannburstuninni

Haltu á tannburstanum eins og penna og burstaðu mjúklega yfir tennurnar með hringlaga hreyfingum

Passaðu að bursta allar tennurnar, líka þær öftustu og við tannholdið

Burstaðu stutt í einu og endaðu tannburstunina alltaf á jákvæðan hátt með dýrinu

Hvernig getur fóður haft áhrif á tannheilsu dýrsins míns? 


Ef hundurinn eða kötturinn þurfa meiri stuðning við tannheilsu en reglubundna tannburstun er ráðlagt að skoða fóðurval dýrsins. 


Fóður ætluð tannheilsu eru hönnuð með stærri fóðurkúlulögun og hvetur dýrið enn frekar til að bryðja heldur en gleypa. Stærri fóðurlögun hjálpar til við að bursta tannsýkla af tönnunum sjálfum sem og að draga úr kalkmyndun við tannsýkluna sem verður svo síðar meir að tannsteini.


Til viðbótar er gott að hafa í huga: 

  • Náttúruleg áhrif fóðursins: Veldu fóður með viðeigandi stærð  og lögun af fóðurkúlum fyrir dýrið þitt
  • Forvarnir: Með því að velja fóður sem styður við tannheilsu getur þú minnkað hættu á tannholdsbólgu, slæmri andfýlu og öðrum vandamálum
  • Samráð við dýralækni:Ef dýrið þitt er þegar með tannheilsuvandamál er mikilvægt að ræða við dýralækni varðandi hvers konar meðhöndlun sé nauðsynleg í sambland við aðlagað fóðurval

Með réttu fóðri og reglulegri tannhirðu getur þú bætt tannheilsu dýrsins og stuðlað að lengra og heilbrigðara lífi þeirra.


Hundur borðar Royal Canin Dental Care

Samantekt


Tannheilsa dýra skiptir lykilmáli í langtíma heilsu þeirra. Með fyrirbyggjandi umönnun má fyrirbyggja alvarlegri tannheilsuvandamál og þar með stuðla að heilbrigðara og betra lífi dýrsins þíns.


Fyrirbyggjandi umönnun, tannburstun og tannskoðun heima fyrir

Sé dýrið sérstaklega viðkvæmt fyrir myndun tannsteins getur sérhæft fóður hjálpað til

Mikilvægt að leita til dýralæknis sé grunur um tannsjúkdóm eða tannvandamál

Hér fyrir neðan: Vörur með sannreynda virkni í tannheilsu hunda og katta

Algengar spurningar

Hvaða tannkrem og tannbursta má nota

Mikilvægt er að velja tannkrem sem viðurkennt er af dýralæknum fyrir dýr. Hægt er að nota grisju, þvottapoka eða mjúkan mannatannbursta af viðeigandi stærð fyrir dýrið þitt eftir því hvað hentar best.

Hversu oft er ráðlagt að bursta tennur?

Best er að bursta tennurnar daglega, en ef það er ekki mögulegt, ætti það að vera gert að minnsta kosti 2–3 sinnum í viku. Það hjálpar að draga úr tannsteinsmyndun og andfýlu.

Hvernig bursta ég tennur á dýrinu mínu?

  • Notaðu extra mjúkan tannbursta af stærð sem hentar munni dýrsins þíns.
  • Veldu tannkrem sem er hannað fyrir hunda eða ketti 
  • Burstaðu mjúklega með hringlaga hreyfingum og hafðu þetta stutta æfingu í upphafi til að venja þau.

Getur matarræði haft áhrif á tannheilsu hunda og katta?

Já, mataræði skiptir miklu máli. Sérhæfð fóður eða tannhreinsandi nammi getur hjálpað til við að draga úr tannsteinsmyndun. Þurrfóður getur einnig hjálpað, þar sem það stuðlar að meira burstandi áhrifum á tennur en blautfóður.

Theodóra, dýrahjúkrunarfræðingur

THEODÓRA RÓBERTSDÓTTIR

Theodóra er dýrahjúkrunarfræðingur að mennt og er með Award of merit í næringu smádýra frá BSAVA. Ásamt því er áhugasviðið að fyrirbyggja vandamál og sjúkdóma gegnum umönnun. Theodóra starfar hjá Dýrheimum við ráðgjöf tengda heilsu og næringu í Heilsutékki Dýrheima auk þess að halda fyrirlestra, einkatíma fyrir sýningar og sýnendanámskeið.