Hvernig virkar næring?

júní 09, 2023 4 mínútur að lesa

Mikilvægi næringar

Rétt samsett næring er lykilatriði í uppvexti og heilsu dýranna og gegnir mikilvægu hlutverki í að styðja við endurheimt eftir eða við veikindi og er mikilvægur áhrifaþáttur í sjúkdómsstjórnun sé dýrið með t.d. liðvandamál, hjartveiki, skerta nýrnastarfsemi o.s.frv.. Næring er í dag talin fimmta "lífsmarkið" sem meta skal í hverri dýralæknaskoðun, þar sem metin er þörf á frekara mati á ákveðnum þáttum þar sem næring skiptir enn meira máli. Slíkir þættir eru m.a. aldur, virknistig, sjúkdómar, húð og feldvandamál, sé dýrið á lyfjum eða fæðubótarefnum. 

Markmið góðrar næringar

Heildstætt og í jafnvægi

Að næringin innihaldi öll næringarefni sem dýrið þarf, í réttu magni og réttum hlutföllum. 


Meltanlegt/nýtanlegt

Að næringarefnin séu í raun nýtanleg (bioavailable) dýrinu. Mikilvægt er að dýrið geti nýtt næringarefnin sem það innbyrðir. Hér er gott að hafa í huga mismunandi þarfir dýrategunda, tegunda innan þeirra, aldursskeið og sjúkdóma. Nýtanleikinn fer svo meðal annars eftir því í hvaða formi hráefnið kemur, uppruna þess, aðstæður t.d. við ræktun, hvers konar hráefni. 


Aðlaðandi

Dýrið verður að borða matinn, áhrifaþættir á hversu aðlaðandi næringin er er t.d. fitumagn, raki, prótein, lykt, áferð og fóðurlögun.


Abyssinian fullorðinn
Magn 

Mikilvægt er að gefa rétt magn af næringu, því bæði of lítið og of mikið af næringarefnum getur valdið skaða. Eins getur of mikil orka valdið ofþyngd og heilsufarskvillum því tengdu. 


Öruggt

Næringin þarf að vera laus við allt sem gæti valdið skaða, bæði fyrir dýrið og eiganda/heimilismeðlimi þess, t.d. bakteríur sem geta valdið sjúkdómum í meltingarvegi (t.d. salmonella, kampýlóbakter og e.coli), en slíkt getur haft áhrif á heimilismeðlimi dýrsins.

Að lesa á pokann

Hver er tilgangur fóðurpokans? Tilgangur er að veita kaupendum upplýsingar um uppruna, tegund næringar (heilfóður, fæðubót, osfrv.), fyrir hvern næringin er ætluð (tegund dýrs, aldursskeið, sjúkdóma osfrv.), innihaldsefni, næringargildi, geymsluskilyrði, þyngd og síðasta söludag. Eins má sjá hver framleiddi fóðrið, hvar og jafnvel skilaboð frá fóðurframleiðanda. Á fóðurpokum má svo gjarnan sjá mismunandi markaðssetningu fyrirtækjanna, en hún er ætluð til kaupandans en ekki neytandans (dýrið), því er mikilvægt að auka þekkingu eigandans/kaupandans á markaðstrendum, hvernig næring virkar og hvað þarf að hafa í huga við val á fóðri. Mismunandi reglugerðir eru t.d. í bandaríkjunum og evrópu varðandi hvað skuli standa á pokanum og hvernig það er uppsett/birt. 


Góðar leiðbeiningar um kröfur til framleiðanda má finna hjá WSAVA og FEDIAF.

https://wsava.org/wp-content/uploads/2020/01/Nutrition-Label-EU-16_9.pdf
WSAVA - Interpreting Food Labels, EU​​

Innihald og næringargildi

Hundar og kettir þurfa nauðsynlega um 40 næringarefni sem geta komið úr mismunandi ininhaldsefnum til þess að viðhalda heilbrigðri líkamsstarfsemi. Til þess að ná réttri samsetningu næringarefna þarf að velja saman innihaldsefni eins og t.d. kjúkling og/eða annan próteingjafa, grænmeti, kornmeti, vítamín og steinefni í réttum hlutföllum en einnig tryggja öryggi og gæði innihaldsefnanna til þess að mæta næringarþörfum dýranna.


Það getur verið flókið að lesa á fóðurpoka og skilja allar upplýsingar sem þar koma farm og hvort sú næring henti dýrinu. Mikilvægt er að skilja muninn á innihaldsefni og svo næringargildi. 


Innihald: Fæðutegundirnar sem fæði er samsett úr. 

Næringarefni: Nauðsynleg og ónauðsynleg frumefni og efnasambönd sem líkaminn notar til að búa til allar frumubyggingar, vefi, boðsameindir og efnaskiptahluta. 


Innihaldslistinn fer eftir þyngd innihaldsefna, sem þýðir að innihaldsefni sem innihalda vatn t.d. ferskt kjöt eru eðlilega þyngri en t.d. þurrkað kjöt og falla því ofar í innihaldslista heldur en þurrkuð efni þó að raunmagn í samanburði sé annað. 


Næringagildið segir okkur til um magn næringarefna í fóðrinu, það er gefið upp í hlutfalli m.v. þyngd eða hitaeiningarfjölda (t.d. per 100gr eða 100kcal). Skipta má næringarefnunum upp í makrónæringarefni (t.d. prótein og fita) sem er gefið upp í % eða gr. Næringarefni sem eru töluvert smærri kallast míkrónæringarefni og eru gefin upp í mg. eða mcg. 

áhersla

Almennt leggja dýralæknar, dýrahjúkrunarfræðingar og sérfræðingar í næringu dýra áherslu á næringargildi/næringarefnin en ekki innihaldsefni sem slík nema í örfáum undantekningartilfellum (t.d. fæðuofnæmi), þar sem inntaka næringarefnanna sjálfra er nauðsynleg og áherslur á því sviði misjafnar eftir nokkrum áhrifaþættum. 

Dæmi um slíka áhrifaþætti eru t.d. ungviði í uppvexti, meðganga, mjólkurgjöf, öldungar, vinnudýr og heilsufarsástand. Þar má sjá breytta þörf á próteini, fitu, steinefnum o.s.frv.

nokkur ráð

Við viljum aðeins það besta fyrir dýrin okkar og eigum því að gera kröfur til framleiðenda.


Hér koma nokkur góð ráð: 


- Ræðum næringu við dýralæknana okkar, þeir eru sérhæfðir í heilbrigði dýranna. Ef ekki dýralækni þá sérmenntaðan aðila t.d. dýrahjúkrunarfræðinga. Sérhæfing í næringu er langt ferli og því ber að kanna sérstaklega bakrunn aðila sem titla sig sem sérfræðinga í næringu  dýra (slík sérhæfing er yfirleitt eingöngu í boði fyrir t.d. dýrahjúkrunarfræðinga, dýralækna o.s.frv.). 


- Spurðu spurninga. Mikilvæg svör má sjaldnast finna á fóðurpokanum sjálfum: 

  •  Er fyrirtækið með lærða næringarfræðinga (board certified nutritionists) starfandi?
  •  Hvaða öryggiskröfur eru gerðar í framleiðslu?
  •  Gæðastjórnun, hvaða gæðaprófanir eru gerðar á innihaldsefnum og hvað er gert ef innihaldsefni standast ekki kröfur, eru uppskriftir ávallt eins?
  • Getur framleiðandi svarað ítarlegri spurningum um sérstakt næringarefni í fóðrinu?
  • Eru rannsóknir á bakvið fóðrið?
  • Framleiðir framleiðandinn sjálfur fóðrið eða er framleiðslu útvistað? 
  • Eru framkvæmdar viðbótar gæðaprófanir umfram skylduprófanir?

Framleiðandi á ávallt að geta svarað slíkum spurningum. 


- Horfum gagnrýnum augum á upplýsingar á netinu. Netið er gífurleg auðlind upplýsinga sem bæði geta verið áreiðanlegr auk fjölda óáreiðanlegra upplýsinga sem geta verið goðsagnir, rangar eða algjörlega rangar. Það er því mikilvægt að vera gagnrýninn og sérstaklega þegar kemur að upplýsingum varðandi dýrin okkar. Að rannsaka höfund upplýsinganna, upplýsingaveituna sjálfa og ræða upplýsingarnar við t.d. dýralækninn þinn getur hjálpað til með ákvarðanatöku. 

Nánara lesefni:


https://europeanpetfood.org/pet-food-facts/fact-sheets/nutrition/understanding-pet-food-labels/


https://europeanpetfood.org/self-regulation/nutritional-guidelines/


https://europeanpetfood.org/wp-content/uploads/2022/03/Updated-Nutritional-Guidelines.pdf


https://wsava.org/wp-content/uploads/2021/04/WSAVA-Global-Nutrition-Toolkit-English.pdf


https://ovcpetnutrition.uoguelph.ca/2020/11/06/understanding-nutrients-and-ingredients/


https://wsava.org/wp-content/uploads/2021/04/Selecting-a-pet-food-for-your-pet-updated-2021_WSAVA-Global-Nutrition-Toolkit.pdf
Theodóra ásamt Matthildi, pudelpointer.
THEODÓRA RÓBERTSDÓTTIR

Theodóra er dýrahjúkrunarfræðingur að mennt og er með Award of merit í næringu smádýra frá BSAVA. Ásamt því er áhugasviðið að fyrirbyggja vandamál og sjúkdóma gegnum umönnun. Theodóra starfar hjá Dýrheimum við ráðgjöf tengda heilsu og næringu í Heilsutékki Dýrheima auk þess að halda fyrirlestra, einkatíma fyrir sýningar og sýnendanámskeið.