Húð hunda, feldur og tengsl við næringu

maí 25, 2023 5 mínútur að lesa

Húðin er stærsta líffæri líkamans, því er mikilvægt að hlúa vel að henni bæði með góðri næringu og ytri umönnun. Hlutverk húðarinnar er fjölþætt en meðal hlutverka eru að viðhalda stöðugu innra umhverfi líkamans, ónæmissvörun, vernd gegn ytra umhverfi, jafna hitastig (bæði kæla sig og halda hita) og veitir hundunum næmni fyrir snertingu. 

Uppbygging húðarinnar

Skipta má húðinni í þrjú lög. 


Yfirhúð (Epidermis) sem er ysta lag húðarinnar, það er samsett úr fjölda frumna sem allar gegna sínu hlutverki. Meðal þessara frumna eru t.d. hyrnisfrumur, litfrumur og langer-hans frumur. 


Miðjulag húðarinnar kallast leðurhúð (Dermis), hlutverk þess er að næra efsta lag húðarinnar. Æðarnar sem sjá efsta lagi húðarinnar fyrir næringu eru staðsettar í dermis, auk þess stýra æðarnar húð og líkamshita. Fjöldi tauga eru til staðar ásamt ónæmisfrumum sem verjast efnum sem fara gegnum efsta lag húðarinnar. Í miðjulagi húðarinnar eru svo hársekkir og kirtlar.

Uppbygging húððar
Mynd frá MSD Veterinary Manual​​

Neðsta lag húðarinnar er kallað húðbeður (Subcutis) og þýðir subcutis "undir húð", það er samsett af fitulagi og vöðvum. Hlutverk húðbeðsins og fitulagi hans er að einangra hita, geyma vökva, steinefnasölt og orku.


Hundar losa helst hita út í gegnum öndun og einnig að einhverjum hluta gegnum svitakirtla á loppum.  

Feldur

Feldur hunda gegnir nokkrum hlutverkum, m.a. að vernda húðina fyrir útfjólubláum geislum, stjórna hitastigi (slík hæfni fer þá eftir feldgerð og feldgæðum). 

Feldgerðir eru þónokkrar en helst má þá nefna snöggan feld, tvöfaldan feld, síðan feld og strýhærðan feld. Umhirða feldgerðanna er misjöfn og því mikilvægt að kynna sér sérstaklega feldgerð síns hunds og hvernig skal best huga að umönnun hans. 


Feldskipti eiga sér svo stað hjá flestum tegundum (þó undantekningar þar á) þar sem feldurinn endurnýjar sig í meira magni yfir ákveðið tímabil, slíkt gerist yfirleitt um tvisvar á ári. Hér áður fyrr voru slík tímabil mjög skýr, eða við hitabreytingar á vorin og haustin. Núorðið geta feldskiptatímabil verið lengri en minna áberandi þar sem húsakynni eru alla jafna mikið kynt, hiti í gólfum og miklar hitabreytingar daglega fyrir hundinn.

Þrír fasar feldvaxtar.

Einkenni húðvandamála

Einkenni húðvandamála geta verið fjölbreytt, algeng einkenni eru kláði, nag á húð/feld og erting, t.d. roði eða bólgur. Eins má telja til húðvandamála óeðlilegt hárlos, flasa, breyting á áferð feldsins, hnúðar eða breyting á lykt hundsins. Orsök þessara einkenna getur verið flókið að finna þar sem einkennin geta átt fleiri en eina orsök. 


Hvað er gott að kortleggja til þess að einfalda greiningu?


Að halda dagbók um einkenni, hvenær þau eru sem verst, hvenær þau eru minni, á hvaða tímabili ársins eru einkennin sem mest, hafa verið breytingar á heimilinu eða voru ný nagbein/aukabitar gefnir? 


Húðvandamál geta verið langdregin í greiningu og tekið á eiganda og hund. Því er gott samspil við dýralækni mikilvægt til þess að árangur náist sem fyrst. 

Orsakir húðvandamála

Til eru ótal orsakir húðvandamála, einnig geta orsakirnar verið fjölþættar og því flóknar að vinna úr. 


Til algengra húðvandamála má til dæmis nefna ofnæmi/óþol (umhverfis og/eða fæðutengt), bakteríusýkingar, flasa, sveppasýkingar, sníkjudýr, næringartengd vandamál. Sérstaklega verður fjallað um ofnæmi síðar. 

tengsl næringar við húðina

Næringartengdir húðsjúkdómar eru ekki aðeins tengdir gæðum næringarinnar, heldur einnig einstaklingsbundnum þáttum hundanna, aldri, fyrra heilsufari, feldástandi og tilhneigingu til sjúkdóma útfrá tegund hundsins. En sumar tegundir eru sérstaklega viðkvæmar fyrir ákveðnum húðvandamálum þar sem næring spilar stóran þátt. 


Möguleg einkenni næringartengdra húðvandamála:

- Líflaus feldur

- Flasa 

- Hrúðurmyndun

- Kláði

- Langvarandi eyrnabólgur

- Endurteknar húðsýkingar


Einkennin geta einnig átt aðrar orsakir en næringartengdan uppruna. 


Næringarefni sem hafa geta haft áhrif á húðheilsu


Mikilvægt er að hlutföll og magn sé innan ráðlagra marka, ekki er ráðlagt að gefa fæðubótarefni nema í samráði við dýralækni. En með fæðubótarefnum er auðvelt að valda ójafnvægi með tilheyrandi afleiðingum. 


Prótein Nægileg próteininntaka sem inniheldur allar þær amínósýrur fyrir myndun keratínfrumna. 
Fjölómettaðar fitusýrur Tilheyra lípíðunum sem framleidd eru af fitukirtlum sem mynda vatnslípíð yfirborðsfilmu húðarinnar.
Vatnsleysanleg vítamín Taka þátt í vinnslu fjölómettaðra fitusýra. 
Bíótín Nauðsynlegt til vinnslu fjölómettaðra fitusýra.
Sink Sink stuðlar að því að takmarka vatnstap gegnum húð, skortur á sinki getur valdið vandamálum í nýmyndun húðfrumna (sérstaklega viðkvæmt t.d. í Siberian Husky). 
A vítamín Nauðsynlegt til að keratínfrumur þroskist eðlilega.
C vítamín Spilar stórt hlutverk í myndun líðpíða í keratínfilmu húðarinnar.
E vítamín Skilst út með fitukirtlum, hjálpar til við að takmarka oxun fitusýra.
Nikotínamíð (B3)  Eykur styrk frírra fitusýra og keramíðs í keratínríka lagi húðarinnar. 


Áhrif á nýtingu næringar

Þónokkuð getur haft áhrif á nýtingu næringar, meðal annars aldur og líkamlegt ástand. Í hvolpum hefur óþroskað ónæmiskerfi og aukið gegndræpi í þörfum að einhverju leyti áhrif á viðkvæmni fyrir fæðu/orsakað fæðuóþol. 

Hvað varðar líkamlegt ástand þá spilar það eining stóran þátt í nýtingu næringar, næringarskortur er oftar sjáanlegur þegar næringarþarfir hundsins fara umfram almenna viðhaldsþörf, t.d. langvarandi sjúkdómar, tíkur á síðustu vikum meðgöngu, mjólkandi tíkur, hvolpar í uppvexti, þá sérstaklega stórar tegundir. 

Þetta undirstrikar mikilvægi þess að næra hundinn á viðeigandi hátt miðað við aldur og líkamlegt ástand ásamt fleiri þáttum. Feldur - feldlitur og feldlos

Óeðlilega mikið feldlos

Gen, hormónajafnvægi/ójafnvægi, ljós/dagsbirta og næring geta haft áhrif á magn feldlos eða lengd feldlostímabils. Nokkrir áhrifaþættir geta spilað þar þátt, t.d. innkirtlavandamál, umhverfisþættir, skortur á meðal annars fjölómettuðum fitusýrum, bíótíni, tírosín, tryptófan, E vítamíni og A vítamíni. Þó er mikilvægt að hafa í huga að með viðbótar fæðubótargjöf er hægt að valda meiri usla en bata og því mikilvægt að ræða slíkt við dýralækni eða fagaðila. 


Rauðir tárataumar í ljósum feld

Nokkrir áhrifaþættir eru af því að rauðir tárataumar myndast í ljósum feld hunda, meðal orsaka geta verið t.d. raki (offramleiðsla tára eða tár ná ekki að renna niður í táragöng eðlilega), hiti, bakteríu- og/eða sveppamyndun. Oft á tíðum má einnig sjá smávægilegar breytingar í anatomíu höfuðs og augna sem orsaka að tár renna að hluta til ekki nægilega vel í táragöng, eða táragöng séu gjörn á að stíflast. 


- Hvernig er hægt að bregðast við þessari litun?

Halda augnsvæði eins hreinu og svo þurru og hægt er. Eftir uppruna þarf að meðhöndla þá bakteríur og sveppi, eða anatómísk vandamál. 


- Fæðutengt?

Örlítið lægra magn amínosýranna phenylalalnine, týrosín ásamt örlítið lægra magni af kopar í fóðri getur hjálpað til með að takmarka rauðan lit í hvítum hundum. Þó ber að hafa í huga að ekki skuli takmarka um of vegna hættu á ójafnvægis í fóðrun.  


Phenylalanine stuðlar meðal annars að bættu minni og hæfni til lærdóms, Týrosín stuðlar að því að bæta árvekni, athygli og einbeitingu. Kopar hjálpar til myndunar rauðra blóðfrumna og upptöku járns. 


Svartur feldur með rauðan undirtón

Hafi hundur tilhneygingu til þess að fá rauðan undirtón í svartan feld sinn er hægt að skoða týrosín magn í næringu hundsins, en aukið týrosín getur stuðlað að bættum feldlit svartra hunda. 

Nánara lesefni: 

https://www.msdvetmanual.com/dog-owners/skin-disorders-of-dogs


https://www.msdvetmanual.com/integumentary-system/integumentary-system-introduction/dermatologic-problems-in-animals


https://vcahospitals.com/know-your-pet/nutrition-skin-and-dogs


Encyclopedia of Canine Clinical Nutrition


Applied Veterinary Clinical NutritionTheodóra ásamt Matthildi, pudelpointer.
Theodóra Róbertsdóttir

Theodóra er dýrahjúkrunarfræðingur að mennt, aðaláhugasvið hennar liggur í næringu  hunda og katta ásamt því að fyrirbyggja vandamál og sjúkdóma gegnum umönnun. Theodóra starfar hjá Dýrheimum við ráðgjöf tengda heilsu og næringu í Heilsutékki Dýrheima auk þess að halda fyrirlestra, einkatíma fyrir sýningar og sýnendanámskeið.