Umönnun eldri katta

apríl 04, 2023 4 mínútur að lesa

Öldrunarferli katta getur verið einstaklingsbundið og einkenni komið fram með mismunandi hætti á mismunandi tímum. Flestir kettir sýna einhver öldrunarmerki frá 7-12 ára aldri, t.d. minna bragð- og lyktarskyn, verri heyrn, tannsjúkdómar, stirðari liðir, minni hreyfigeta ásamt fleiri einkennum. 

Merki um öldrun

Með hækkandi aldri kattarins eykst viðkvæmni fyrir aldurstengdum kvillum og sjúkdómum. Dæmi um slíkar breytingar eru m.a. að bragðlaukar verða minna viðkvæmir, lyktarskyn minnkar, elliglöp koma fram, viðkvæmari húð, öldrunarmerki í nýrum og kölkun liðamóta. Með hækkandi aldri getur nýting andoxunarefna minnkað, sem hefur áhrif á oxidatívt stress frumna líkamans. 


Afhverju þurfa eldri kettir öðruvísi umönnun?

Með hækkandi aldri, er þörf á aukinni tíðni dýralæknaheimsókna og nánari eftirgrennslan hegðunarbreytinga til þess að stuðla að bættri líðan kattarins ef og þegar breytingar verða. 


Athugið að breytingar á hegðun geta því verið sjúkdómstengdar og skal ávallt útiloka slíkt með skoðun hjá dýralækni áður en farið er út í breytingar á umönnun eða heimili!

Hvenær telst köttur aldraður?

Það er stöðugt í umræðunni hvenær köttur telst aldraður en almennt eru kettir taldir aldraðir frá 11-14 ára og svo háaldraðir eftir 15 ára aldur. Þó geta breytingar tengdar aldri byrjað fyrr og umönnunar- og næringarþarfir ólíkar eftir slíkum tímabilum. 

Nú til dags lifa kettir almennt mun lengur en áður fyrr þökk sé bættri næringu, dýralæknaþjónustu og umönnun heima fyrir. 

Öldrunareinkenni katta

Aðlögun heimilisins


Aðlögðun heimilisins fer eftir þeim kvillum eða einkennum sem kötturinn getur sýnt eins og t.d. skert sjón, kölkun liðamóta/gigt o.s.frv. Yfirleitt eru smávægilegar breytingar nægilegar, athugið að listinn hér að neðan er aðeins til þess að gefa hugmynd um hvað sé hægt að gera til þess að stuðla að bættri líðan kattarins. 


- aðlaga svæði kattarins ef heimilið er á fleiri en einni hæð 

- lækka kanta á kattasandskassa

- svefnpláss

- kattalúgur

- staðsetning matar og vatnsdalla 

- minnka stressvalda á heimili


Köttur

Hegðunarbreytingar

Eldri kettir veiða almennt minna, eyða minni tíma í útiveru og sofa lengur en á yngri árum. Vegna minna bragð- og lyktarskyns getur hegðun í tengslum við matartíma breyst. 


Hegðunarbreytingar sem geta komið fram t.d. þvaglát á nýjum stöðum, aukið væl, lystarleysi, auk fleiri breytinga geta átt sér líkamlega orsök og mikilvægt að leita ávallt til dýralæknis til þess að útiloka slíkar orsakir. Séu líkamlegar orsakir fyrir hegðunarbreytingu er best að greina þær sem fyrst svo hægt sé að stuðla að bættri líðan. 

Næring eldri katta

Með hækkandi aldri hægist á allri starfsemi, þar á meðal brennslu og meltingu. Með slíkum breytingum breytast einnig næringarþarfir kattarins. Það tekur meltinguna lengri tíma að melta fæðuna og næringarupptaka verður meira krefjandi - sérstaklega upptaka próteina og fitu! Minna bragð- og lyktarskyn hefur einnig áhrif á áhuga á fóðri og þarf því fóðrið að vera aðlaðandi fyrir köttinn svo þeir innbyrði öll þau næringarefni sem þeir þurfa. 


Til þess að tryggja góða næringu á efri árum kattarins ætti fóðrið að innihalda t.d. glúkósamín, kondroítin og fitusýrurnar EPA/DHA  með extrakti úr grænum kræklingum til þess að styðja við liðheilsu eldri katta. Sjúkrafóður ætlað liðheilsu sýna almennt fram á bætta líðan og minni verki eftir um það bil mánuð á breyttu matarræði. 


Eins geta eldri kettir þjáðst af viðvarandi nýrnavandamálum og/eða þvagfæravandamálum. Minna magn fosfór í fæðu eldri katta getur fyrirbyggt slík vandamál eða hægt á ferli sjúkdómanna, en fosfór er eitt af fyrstu næringarefnunum sem safnast upp í blóðinu þegar nýrnavandamál gera vart við sig. 


Gott er að gefa blautmat til þess að auka vökvainntöku eldri katta, mikilvægt er að hafa í huga að fóðrið sé heilfóður ætlað eldri köttum. Almennt er jákvætt að gefa bæði þurrfóður og blautfóður hafi kötturinn tök á og áhuga á slíku en með því hámörkum við kostina við báðar leiðir. 

Almenn umönnun

Almenn umönnun eldri katta er ekki svo frábrugðin yngri katta, en það er gott að hafa eftirfarandi atriði í huga:


Holdarfar

Kettir bæta almennt á sig á kvið eða við kviðpokana, því er mikilvægt að vigta kettina reglulega til þess að fylgjast með þyngdarbreytingum. 


Klær 

Klær eldri katta vaxa oft hraðar og eru almennt brothættari. Loppur og klær verða oft viðkvæmari og stundum verður þörf á að klippa klær eldri katta séu þeir eingöngu inni. 


Snyrting

Mikilvægt er að huga að feld eldri katta en á efri árum þurfa sumir aðstoð við að halda feldinum hreinum og óflæktum. 


Tennur

Tannheilsa er gífurlega mikilvæg og þarf að fylgjast sérstaklega með. Slíkt er gott að skoða í reglulegum dýralæknaheimsóknum. 

Dýralæknaheimsóknir

Raðlagt er að eldri kettir fari í dýralæknaskoðun á 6-12 mánaða fresti. En í slíkum heimsóknum metur dýralæknir heilsufar kattarins og metur með eiganda þörf á rannsóknum. Sjúkdómar sem herja frekar á eldri ketti eru m.a. skert nýrnastarfsemi, sykursýki, gigt og ofvirkur skjaldkirtill, slíka sjúkdóma má í flestum tilfellum meðhöndla með réttu matarræði og lyfjum í samráði við dýralækni. Í slíkum tilfellum er ávallt betra að greina sjúkdóma fyrr heldur en seinna. 

Fóður fyrir eldri ketti

Sjúkrafóður

Nánara lesefni: 

Small Animal Clinical Nutrition, Quick Consult. Mark Morris Institute. 


Practical Atlas of Nutrition and feeding in cats and dogs. Volume II. 


https://icatcare.org/advice/elderly-cats-special-considerations/


https://vcahospitals.com/know-your-pet/helping-our-senior-cats-age-gracefully


https://www.royalcanin.com/is/is_is/cats/health-and-wellbeing/what-older-cats-need-from-their-diet


https://www.royalcanin.com/is/is_is/cats/health-and-wellbeing/how-old-age-affects-cats


https://vcahospitals.com/know-your-pet/feeding-mature-senior-and-geriatric-cats
Theodóra ásamt Matthildi, pudelpointer.
Theodóra Róbertsdóttir

Theodóra er dýrahjúkrunarfræðingur að mennt, aðaláhugasvið hennar liggur í næringu  hunda og katta ásamt því að fyrirbyggja vandamál og sjúkdóma gegnum umönnun. Theodóra starfar hjá Dýrheimum við ráðgjöf tengda heilsu og næringu í Heilsutékki Dýrheima auk þess að halda fyrirlestra, einkatíma fyrir sýningar og sýnendanámskeið.