mars 08, 2023 5 mínútur að lesa
Kettir eru almennt hlédrægir og sýna tilfinningar sínar ekki jafn augljóst og aðrar tegundir dýra. Því er nauðsynlegt fyrir eigendur katta að þekkja streitumerki þeirra til þess að auka lífsgæði og bregðast við líðan kattarins.
Flest höfum við heyrt talað um að kettir séu viðkvæmir fyrir stressi en mörg líklega ekki gert okkur grein fyrir hve algengt er að kettir búi við stress, en stress hefur verið greint sem mjög algengur þáttur í hegðunarvandamálum katta og þónokkrum algengum sjúkdómum.
Stress er viðbragð við álagi eða hættu, það er því náttúrulegt viðbragð þar sem öndunartíðni eykst, streituhormón myndast og líkaminn dælir blóði líkamans hraðar út í útlimi og vöðva líkama kattarins til þess að undirbúa sig við að slást eða flýja.
Stress getur því haft jákvæðar og neikvæðar afleiðingar en það er köttunum okkar eðlislægt og nauðsynlegt til þess að lifa af.
Talað er um tvær tegundir stress, "jákvætt stress" og "neikvætt stress". Hinsvegar þegar talað er um stress í daglegu tali er þá yfirleitt átt við "neikvætt stress" sem veldur óþægindum.
Skammtímastress:
Langtímastress:
Þeir þættir sem hugsanlega geta valdið streitu og stressviðbrögðum kattarins má finna í umhverfi hans og samskiptum við aðra meðlimi heimilisins. Deili kötturinn heimili með öðrum köttum sem honum semur illa við getur slíkt haft verulega streituvaldandi áhrif á köttinn. Í sumum tilfellum getur eigandi ómeðvitað valdið kettinum streitu með hegðun sinni, sífelldum breytingum og rútínuleysi. Upplifi köttur einkenni stress til lengri tíma má ætla að líðan hans sé ekki góð. Því lengur sem kötturinn er í því ástandi, því erfiðara getur verið að brjóta upp afleiðingar þess.
Stress getur haft áhrif á líkamlega heilsu, hæfni til þess að viðhalda náttúrulegri hegðun ásamt andlegri líðan kattarins.
Þvagfærakerfi:
Eitt þekktasta dæmi um líkamleg áhrif stress er sjúkdómurinn FIC (Feline idiopathic cystitis) eða blöðrubólga án þekktrar orsakar. Sjúkdómurinn fellur undir svokallaðan FLUTD flokk en hann er yfirgripsheiti á öllum sjúkdómum í neðra þvagfærakerfi. Dæmi um einkenni eru m.a. erfiðleikar við þvaglát, verkir við þvaglát, aukin tíðni þvagláta, blóð í þvagi, þvaglát á óviðeigandi staði, óeðlilega mikil þrif á kynfærum.
Ónæmiskerfi:
Það er vel þekkt að langvarandi framleiðsla sykurstera og katekólamína vegna langvarandi streitu getur truflað og bælt niður ónæmiskerfi líkamans.
Húð:
Stresstengd ofsnyrting sem getur valdið skallablettum og kláða. Aukið hárlos getur einnig verið stresstengt.
Meltingarfæri:
Bein tenging er milli meltingar og heila gegnum sympatíska og parasympatíska kerfið. Tenging milli stress og meltingarfæravandamála er þess vegna jafn líkleg í köttum eins og öðrum tegundum. Eins tefur stress þarmahreyfingar sem hefur áhrif á matarlyst, uppköst og niðurgang.
Offita:
Hækkun á sykursterum í líkamanum er líkleg orsök aukinnar matarlystar og ofáts. Þvinguð megrun þar sem minna magn matar er gefið getur einnig aukið stress, sem er mikilvægt að hafa í huga, sérstaklega þar sem fleiri kettir búa saman.
Innkirtlar:
Stress er mikilvægur áhrifavaldur sem hafa þarf í huga hjá köttum með sykursýki og ofvirkan skjaldkirtil þar sem kortisól magn líkamans hækkar við stress.
Tilfinningar eins og hræðsla og kvíði eru hluti af stress viðbragði sem getur haft gífurleg áhrif á andlega heilsu kattarins. Eftirfarandi hegðun getur verið afleiðing af stressi.
Til dæmis:
- Árásargirni
- Þvaglát á stöðum inni sem kötturinn er ekki vanur að losa sig
- Ofsnyrting
- Að innbyrða óæta hluti eða þæfa teppi/ull
Kettir eru með almennar grunnþarfir og svo einstaklingsþarfir. Mikilvægt er að hafa í huga að stressvaldar kattarins geta verið einfaldir hlutir sem ekki trufla eigandann.
Gott er að hafa fyrirsjáanlega rútínu fyrir köttinn, nægar auðlindir (vatn, mat, bæli, kattarklósett, felustaði t.d.) og ef fleiri en einn köttur er á heimilinu er mikilvægt að hver köttur eigi sínar auðlindir. Hægt er að sníða heimilið að þörfum kattarins með ýmsum útfærslum til þess að uppfylla þarfir hans, til dæmis með aðgang að upphækkuðu svæði, leiksvæði, aðskilin svæði fyrir grunnþarfir o.s.frv.. Slíkt hljómar flókið en getur með lítilli fyrirhöfn haft mikil áhrif á líðan kattarins og heilsu hans á heimilinu. Á heimilum þar sem fleiri en einn köttur búa er gott að gera ráð fyrir því að fóðra kettina á mismunandi stöðum á heimilinu, bjóða upp á felustaði innan heimilisins og hafa nægt úrval af kattaklósettum.
Gott er að hafa í huga að það getur þurft að aðlaga matarræði, auka andlega örvun gegnum leik og/eða nota ferómón til þess að búa til notalegra andrúmsloft heima fyrir. Í einstaka tilfellum getur verið þörf á lyfjagjöf í samráði við dýralækni.
Felidae kattafjölskyldan eru eintóm rándýr og að ljónum undanskildum, lifa ekki í félagslegum hópum. Þó hefur félagshegðun gæludýrakatta þróast og er breytileg eftir heimilisaðstæðum, útiveru og fæðuframboði. Það er því mikilvægt að kettir eigi sín eigin yfirráðasvæði. Kettir merkja sér svæðin með því að nota lykt úr andlits kirtlum sínum, þvagi, saur og endaþarms kirtlum og forðast þeir átök við ketti utan síns svæðis, en svæðin sem kötturinn merkir sér geta verið misstór.
Yfirráðasvæði kattarins á heimilinu samanstendur almennt af kjarnasvæði þar sem kettinum líður vel á og þar sem hann upplifir öryggi til þess að sofa, borða, leika sér og mögulega vera í félagslegum samskiptum. Svæðið í kringum yfirráðasvæðið er því svæði þar sem kötturinn skoðar og veltir fyrir sér, hjá inniköttum er það heimilið og útiköttum bæði heimilið og svæðið í kringum heimilið.
Þegar fleiri en einn köttur býr á heimili er mikilvægt að skilja vel hvernig sé hægt að skapa afmörkuð svæði innan heimilisins til dæmis með því að stilla upp húsgögnum og öðrum hlutum heimilisins til þess að auðvelda köttunum að skipta milli sín svæðum.
Sjúkrafóður sem ininheldur blöndu af mjólkurpróteininu Alhpa-S1 kasín trypsik hýrdolýsat ásamt L-tryptófan og B vítamínum til að stuðla að bættu andlegu jafnvægi. Stuðlar auk þess að bættri meltingu með góðgerlafæðu (e. prebiotics) og auðmeltanlegum próteinum (LIP - Low ingestable protein).
Athugið! - Ávallt skal hafa samband við dýralækni sýni köttur heilsufarsleg einkenni vegna stress eða annarra orsaka.
Nánara lesefni:
Practical Feline Behaviour, Understanding Cat Behaviour and Improving Welfare, Trudi Atkinson
https://icatcare.org/advice/stress-in-cats/
https://www.royalcanin.com/us/cats/health-and-wellbeing/is-your-cat-stressed
https://icatcare.org/advice/problem-behaviour/
Theodóra Róbertsdóttir
Theodóra er dýrahjúkrunarfræðingur að mennt, aðaláhugasvið hennar liggur í næringu hunda og katta ásamt því að fyrirbyggja vandamál og sjúkdóma gegnum umönnun. Theodóra starfar hjá Dýrheimum við ráðgjöf tengda heilsu og næringu í Heilsutékki Dýrheima auk þess að halda fyrirlestra, einkatíma fyrir sýningar og sýnendanámskeið.