Þekkir þú öldrunarmerki katta?

maí 15, 2025 4 mínútur að lesa

Það eru forréttindi að fá að fylgja köttunum okkar gegnum þann fjölda ára sem þeir fá þegar allt gengur að óskum. Það krefst þess hins vegar að við vanmetum ekki áhrif öldrunar á líðan þeirra til þess að stuðla að aukinni vellíðan á eldri árum þeirra. Í þessari grein fjöllum við aðeins um áhrif öldrunar á ketti.

Hvenær telst köttur eldri borgari?


Það er misjafnt hvenær sérfræðingar telja kött aldraðan. En lífaldur katta hefur hækkað undanfarin ár þökk sé bættri umönnun, næringu og aukinni þekkingu á heilsufarsvandamálum katta. Það er þó víst að öldrun er einstaklingsbundin og fer að miklu leiti eftir erfðum, heilsufari, lífsstíl og umönnun.


Þegar við hugsum um bætta umönnun þá miðum við að öldrunarferli katta hefjist að einhverju leyti frá uþb. sjö ára aldri. Það þýðir ekki að kötturinn sé gamall við sjö ára aldur heldur að þá sé ráðlagt að huga að aðlagaðari næringu sem styður betur við nýrnastarfsemi og auka hlutfall andoxunarefna í fæðu til þess að styðja betur við frumustarfsemi og hæfni þeirra í að eiga við sindurefni í umhverfinu. En eins er ráðlagt að frá sjö ára aldri sé farið að huga að breyttum þörfum svo hægt sé að styðja sem best við vellíðan katta með hækkandi aldri.

Öldrunarmerki

Með hækkandi aldri geta minnstu öldrunarmerki komið fram sem gott er að eigendur séu meðvitaðir um. Einkenni á við lengri svefntíma, meiri inniveru útikatta, minni matarlyst, minni leikáhugi og jafnvel aukið mjálm geta verið einkenni þess að kötturinn sé að eldast.


Áhrif öldrunar á lífsgæði

Kettir eru jafn misjafnir og þeir eru margir og geta því áhrif öldrunar á lífsgæði verið misjöfn. Þó er mikilvægt að hafa í huga að kettir eru mjög færir í að fela verki og fellur það því í hlutverk eigenda að vera vakandi fyrir minnstu breytingum til þess að styðja við köttinn.


  1. Minni hreyfigeta:

    • Aldraðir kettir sýna oft minni virkni, leika sér minna og hreyfa sig hægar. Stirðleiki í liðamótum, sérstaklega á morgnana eða eftir hvíld, getur verið vísbending um liðverkjavandamál.

  2. Liðverkir:

    • Slitgigt er algeng meðal eldri katta. Kettir geta átt erfitt með að stökkva upp á húsgögn, hoppa inn í kattakassa eða klóra sér. Athuganir á breytingum á hreyfingamynstri geta hjálpað til við að greina verkjavandamál.

  3. Breytingar á matarvenjum:

    • Sumir kettir tapa matarlyst eða þyngjast með aldrinum. Breytingar á næringarþörfum geta átt sér stað en auðmeltanleg prótein með minna magni fosfórs eru almennt ákjósanleg fyrir eldri ketti. Tannvandamál geta einnig valdið erfiðleikum með að bryðja og hafa áhrif á fæðuinntöku.

  4. Aukin þvaglát eða breytingar á hægðum:

    • Aldraðir kettir geta þróað með sér viðkvæma þvagblöðru, farið oftar í kattakassann eða átt í erfiðleikum með þvaglát. Þetta getur verið vísbending um vandamál og þarfnast ávallt skoðunar hjá dýralækni.

  5. Breytt svefnmynstur:

    • Kettir geta sofið meira eða minna en áður. Fleiri næturvökur, óróleiki eða vælandi hegðun á nóttunni getur einnig verið merki um verkjavandamál eða ellimerki í heila.


Að fylgjast með þessum breytingum og aðlaga umhverfið að breyttum þörfum kattarins getur gert mikinn mun á vellíðan hans á efri árum.



Hreinlætisvenjur eldri katta


Aldraðir kettir geta upplifað breytingar á hreinlætisvenjum sínum sem geta haft áhrif á notkun kattakassa. Þeir geta átt það til að fara sjaldnar í kassann, átt erfitt með að hoppa upp í kassann eða jafnvel misst niður þvagleka. Óhappatilvik geta einnig aukist ef kötturinn á erfitt með að finna kassann í tíma eða ef kassinn er óþægilegur aðgengis. Því er gott að endurhugsa þarfir kattarins með það í huga að passa að kassinn sé á aðgengilegum stað og sé ekki með of háum brúnum svo að það sé auðvelt fyrir köttinn að komast í hann.


Hvað þarf að hafa í huga þegar kemur að kattasandi og kassa fyrir eldri ketti:

  • Velja sand sem er mjúkur fyrir viðkvæmar loppur.

  • Notast við kattasand með sterka klumpun sem auðvelt er að þrífa.

  • Kassar með lægri hliðum til að auðvelda aðgang.

  • Fjölga kössum á fleiri stöðum í húsinu ef kötturinn á erfitt með að komast á staðinn í tíma.

Aukin þörf fyrir lyktarstjórnun:

Eldri kettir geta glímt við m.a. nýrnavandamál eða aðra sjúkdóma sem auka lykt í kattakassanum. Slíkum breytingum er afar mikilvægt að fylgjast með og láta dýralækni skoða til þess að útiloka alvarlega kvilla. En aukin lykt getur einnig verið hluti af hækkandi aldri og ýtir undir aukna þörf á aðstoð við almennt hreinlæti kattarins.


Loppa

Heilsufar - hverju þarf einnig að huga að?

  • Klær - eldri kettir þróa gjarnan með sér viðkvæmari og breiðari klær en áður og gætu því þarfnast reglulegrar klóaklippingar.

  • Tannheilsa - mikilvægt er að fylgjast með tannheilsu kattarins reglulega.

  • Feldhirða - eldri kettir eiga gjarnan erfiðara með feldhirðu en áður og gætu þarfnast meiri aðstoðar.

  • Vatnsdrykkja - eldri kettir geta orðið latir við vatnsdrykkju og það er því ráðlagt að fjölga vatnsdöllum, bjóða upp á vatnsbrunna og fjölga blautfóðursgjöfum ef kötturinn kýs. Aukin vatnsdrykkja getur þó fylgt ýmsum algengum sjúkdómum sem geta herjað á eldri ketti og því mikilvægt að ræða við dýralækni.

Ráðleggingar varðandi val á kattasandi fyrir eldri ketti:


Ever Clean Senior er sandur sem er ómótstæðilega mjúkur fyrir viðkvæmar loppur og klumpar enn betur en annar sandur. Sandurinn er því tilvalinn fyrir eldri ketti sem eru farnir að fara oftar í kassann og jafnvel fyrir ketti með þvagfæravandamál vegna góðrar lyktarstjórnunar.


Theodóra Róbertsdóttir, dýrahjúkrunarfræðingur

THEODÓRA RÓBERTSDÓTTIR

Theodóra er dýrahjúkrunarfræðingur að mennt og er með Award of merit í næringu smádýra frá BSAVA. Ásamt því er áhugasviðið að fyrirbyggja vandamál og sjúkdóma gegnum umönnun. Theodóra starfar hjá Dýrheimum við ráðgjöf tengda heilsu og næringu í Heilsutékki auk umsjónar fræðsluseturs Dýrheima.

Nánara lesefni og heimildir:

https://www.vet.cornell.edu/departments-centers-and-institutes/cornell-feline-health-center/health-information/feline-health-topics/loving-care-older-cats


https://www.vet.cornell.edu/departments-centers-and-institutes/cornell-feline-health-center/health-information/feline-health-topics/special-needs-senior-cat


https://academy.royalcanin.com/en/veterinary/geroscience-and-the-aging-cat


https://www.ever-clean.co.uk/cat-care/time-to-change-your-senior-cats-litter/