Hvernig er best að geyma fóðrið?

október 09, 2025 2 mínútur að lesa

Rétt geymsla á fóðri er mikilvæg til að tryggja að fóður haldi næringargildi sínu, lyktar- og bragðgæðum og öryggi frá því fóðurpokinn er opnaður og þar til hann klárast. Rangar geymsluaðstæður geta leitt til oxunar fitu, minnkaðs vítamíninnihalds eða jafnvel vaxtar skaðlegra örvera og skordýra.


Hér fyrir neðan finnur þú einföld ráð til að tryggja að fóðrið haldi sér sem best skv. leiðbeiningum WSAVA (World Small Animal Veterinary Association) og Royal Canin.

Lokaðu pokanum vel eftir hverja notkun


Þegar fóður kemst ítrekað í snertingu við loft getur það þránast og misst bragð og næringargildi.


Við mælum með að:

  • Loka pokanum vandlega eftir hverja notkun, annaðhvort með innbyggðri lokun eða klemmu.

  • Geyma fóðrið í upprunalegum umbúðum í loftþéttu íláti.

Golden Retriever borðar matinn sinn

Geymdu fóðrið á köldum og þurrum stað


Fóður geymist best við stöðugt hitastig undir 25°C og í þurru umhverfi þar sem rakinn er lítill. Þetta á við bæði um þurr- og blautfóður!


Forðastu að geyma fóður í bílskúr, þvottahúsi eða á svölum þar sem hiti og raki sveiflast mikið.


Beint sólarljós getur líka haft áhrif á næringarefnin, sérstaklega vítamín og fitusýrur og því er gott að geyma pokann á dimmum stað, fjarri gluggum.

Köttur að borða

Ekki geyma þurrfóður í ísskáp eða frysti


Þótt kuldi hægi á niðurbroti fitu er ísskápur eða frystir ekki hentugur geymslustaður fyrir þurrfóður.


Þegar pokinn er tekinn út getur rakinn í loftinu þéttst á kornunum og valdið myglu eða breytingum á áferð og lykt/bragði.


Blautfóður í bréfum má geyma í ísskáp eftir opnun en ráðlagt er að hann sé ekki opinn lengur en sólarhring. Best er að fjarlægja blaufóður úr áldós og setja í annað ílát eigi ekki að gefa fóðrið samdægurs, sé dósin nýtt samdægurs er ráðlagt að vera með loftþétt lok á dósinni þangað til hún er kláruð.

Notaðu innan 4–8 vikna frá opnun


Þegar pokinn hefur verið opnaður er gott að skrifa dagsetningu á hann og nota fóðrið innan 4–8 vikna.


Með tímanum geta fitusýrur oxast, sem getur dregið úr lyst og gæðum.


Veldu því pakkastærð sem hentar neyslu gæludýrsins, þannig tryggirðu ferskleika í hverri máltíð.

Border Terrier hvolpur

Ef þú ert í vafa um hvernig best sé að geyma fóður fyrir þitt gæludýr, spyrðu starfsfólk okkar í Dýrheimum. Við aðstoðum þig með ráðleggingar sem taka mið af bæði fóðrinu og aðstæðum heima hjá þér svo að dýrið þitt nærist sem allra best.

Theodóra, dýrahjúkrunarfræðingur

THEODÓRA RÓBERTSDÓTTIR

Theodóra er dýrahjúkrunarfræðingur að mennt og er með Award of merit í næringu smádýra frá BSAVA. Ásamt því er áhugasviðið að fyrirbyggja vandamál og sjúkdóma gegnum umönnun. Theodóra starfar hjá Dýrheimum við ráðgjöf tengda heilsu og næringu í Heilsutékki auk umsjónar fræðsluseturs Dýrheima.

  •  WSAVA Global Nutrition Toolkit, 2021
  • Royal Canin – Storage and Handling Guidelines, 2023

  • Mars Petcare Technical Manual, 2022

  • National Research Council (NRC). Nutrient Requirements of Dogs and Cats, 2006

  • Case et al. (2011). Canine and Feline Nutrition, 3rd ed. Elsevier