Fóðurskammtar hunda og katta

október 18, 2023 3 mínútur að lesa

Partur af umönnun hunda og katta er að sjá til þess að þau fái viðeigandi næringu miðað við aldur, tegund, lífsstíl og heilsufar. Hinsvegar veltum við því gjarnan fyrir okkur hvernig best sé að standa að slíkum matmálstímum, hversu oft á að gefa fóður á dag, hversu mikið magn á að gefa og hvað getum við gert til þess að gera matmálstímana fjölbreytta og skemmtilega. 

1. Matmálstímar

Hundar: 

Almennt er ráðlagt að gefa hundum skammtaðar máltíðir sem standa í 15-20 mínútur að hámarki. Slíkt skapar góða rútínu og leyfir eftirfylgni á magni sem innbyrt er. Einnig er þessi venja öruggari varðandi að tímasetja máltíðir í tengslum við hreyfingu en ekki er ráðlagt að fóðra hund 1-2 tímum fyrir hreyfingu vegna hættu á magasnúningi og uppþembu. 


Kettir: 

Ketti má kalla svokallaða “nartara” en þeir kjósa frekar margar minni máltíðir yfir daginn og er því frekar ráðlagt að hafa ráðlagðan dagsskammt í boði, ef kötturinn er gjarn á að klára úr skálinni að dagsskammti sé þá skammtað jafnt og þétt yfir daginn. 

Köttur að borða

2. Hversu oft gefum við á dag og hvenær?

Hundar: 


Hvolpar frá 8 vikna - 6 mánaða: 

Almennt er ráðlagt að gefa hvolpum 3 máltíðir á dag, en það er sérstaklega mikilvægt fyrir smáhundategundir til þess að koma í veg fyrir blóðsykurfall.


Hundar frá 6 mánaða aldri: 

Almennar ráðleggingar eru tvær máltíðir á dag til þess að dreifa dagsskammti á maga og meltingu hundsins. 


Kettir: 

Því fleiri minni máltíðir - því betra. Sumum köttum hentar að bjóða aðeins stærri hluta dagskammts á kvöldin til þess að tryggja seddu yfir nóttina. En ráðlagt eru að lágmark 2-3 máltíðir á dag.

Hvolpur nagar bein

3. Hvenær er best að gefa skammtana?

Tímasetning fóðurgjafa fer í raun eftir heimilishaldi og rútínu hvers og eins. Hinsvegar er ágætt að reyna að skipta fjölda máltíða nokkuð jafnt yfir daginn. 


Hundar: 

ATH! Mikilvægt að er að fóðra hunda ekki stuttu fyrir hreyfingu (gott að miða við amk 1-2 tíma fyrir hreyfingu ef hreyfingin er mikil). 

Að öðru leyti er mikilvægt að aðlaga fóðurgjafirnar að rútínu heimilisins. 


Kettir: 

Ef kötturinn er gjarn á að vekja heimilismeðlimi snemma morguns getur verið gott að hafa síðustu máltíð dagsins í stærra hlutfalli en fyrri máltíðir. 

Hundur horfir

4. Fóðurmagn

Hvernig vitum við hvað við eigum að gefa dýrunum okkar mikið að borða? 


Mikilvægt er að stuðla að eðlilegu holdarfari dýranna okkar frá upphafi til þess að fyrirbyggja heilsufarsvandamál. Á fóðurumbúðum Royal Canin má m.a. sjá fóðurmagn miðað við þurrfóður eitt og sér ásamt magni ef blautfóður er gefið með. Eins er hægt að miða við virknistig dýrsins. 

Dæmi: 

Hair and skin þurrfóður fyrir ketti → 3 ára köttur í ákjósanlegri þyngd er 4 kg. Hann ætti því að borða 50g af þurrfóðri á dag eða 29g  af þurrfóðri og 1 blautfóðurspoka úr Hair and skin línunni. 

Blautmatur
Royal Canin Hair and Skin
Royal Canin Hair and Skin - Kattafóður

5. Aukabitar - hvað þarf að hafa í huga?

Ansi algengt er orðið að hundar og kettir fái aukabita meðfram fullri fæðu. Mikilvægt er að hafa í huga að slíkt er ekki alltaf skynsamlegt, sérstaklega á uppvaxtarárum þegar meltingarvegur er einstaklega viðkvæmur. 


Hér fyrir neðan koma nokkur ráð: 


  • Takmörkum aukabita eins og hægt er - slíkt getur komið í veg fyrir meltingatruflanir og myndun óþols fyrir fæðu
  • Aukabitar geta verið afar hitaeiningaríkir og eru m.a. taldir orsakavaldur mikillar ofþyngdar hunda og katta (þ.m.t. nagbein, verðlaun og aukabitar úr eldhúsi)
  • Getum við notað fóðrið í þjálfun og leik? Ef svo er, þá er það besta leiðin til þess að stuðla að heilbrigðri meltingu


Aukabitar

5. Fjölbreyttar leiðir fóðurgjafar


Til eru fjölbreyttar leiðir fóðurgjafa í stað þess að setja fóðrið í matardall. Slíkt eykur vellíðan hunda og katta en fjölbreyttar leiðir fóðurgjafa eru frábær leið til þess að auka andlega örvun og þar með auka vellíðan dýranna.

  • Þefleikir
    • Fela fóðurbita á fjölbreyttum stöðum
    • Kasta fóðri út á opið öruggt svæði t.d. garð
  • Handklæði
    • Setja fóðurkúlur jafn óðum inn í innvafið handklæði og hnýta, slíkt er sniðugt fyrir hunda sem verkefni til þess að leysa
  • Þefmottur
    • Dreyfðu fóðrinu í þefmottur
  • Sleikimottur
    • Hér má setja t.d. þurrfóður og vatn á sleikimottu og frysta, nota blautfóður o.sfrv.

6. Hreinlæti og geymsla fóðurs

Ráðlagt er að þvo vatns- og matardalla strax eftir máltíðir til þess að koma í veg fyrir ofvöxt baktería með heitu vatni og sápu. Vatnsdalla skal þvo að lágmarki daglega til þess að tryggja hreinlæti. 

Ráðlagt er að geyma þurrfóður ávallt í upprunalegum umbúðum ofan í loftþéttum ytri umbúðum eða loka pokanum að einhverju leyti. Blautfóður geymist ekki lengur en sólarhring eftir opnun til að tryggja ferskleika. 
 

Theodóra dýrahjúkrunarfræðingur
THEODÓRA RÓBERTSDÓTTIR

Theodóra er dýrahjúkrunarfræðingur að mennt og er með Award of merit í næringu smádýra frá BSAVA. Ásamt því er áhugasviðið að fyrirbyggja vandamál og sjúkdóma gegnum umönnun. Theodóra starfar hjá Dýrheimum við ráðgjöf tengda heilsu og næringu í Heilsutékki Dýrheima auk þess að halda fyrirlestra, einkatíma fyrir sýningar og sýnendanámskeið.