Hvað eru hundasýningar? Hundasýningar eru ræktunardómur á byggingu og hreyfingar hunds sem metið er miðað við tegundarstaðal hverrar tegundar (FCI standard). Allar skráðar tegundir eiga slíkan staðal sem skiptir miklu máli til þess að viðhalda tegundareinkennum sem gera tegundina sérstaka. Keppa hundarnir í rakkaflokkum og tíkarflokkum miðað við aldur og árangur og keppir svo besti rakki við bestu tík þar sem sigurvegarinn verður besti hundur tegundar (Best of breed). Sá sem sigrar keppir svo við aðrar tegundir í sama tegundarhóp (10 tegundarhópar) og sendir hver tegundarhópur sinn fulltrúa* í keppni um besta hund sýningar.
Í uppstillingu er bygging hundsins skoðuð, höfuð, háls, yfirlína, vinklar, brjóstkassi, lend o.s.frv.
Ráð:
Ekki hafa hundinn uppstilltan of lengi í einu
Passaðu að fætur séu rétt staðsettir
Fylgstu með yfirlínu hundsins og að bak hundsins sé sterkt
Ef þú færir fætur hundsins, lyftu þeim en ekki draga þá - það hefur áhrif á vinkla hundsins
www.fci.be - Surface Anatomy
2. Hreyfingar
Hreyfingar hundsins eru metnar í eftirfarandi æfingum: að hlaupa “hring", “fram og til baka” og “þríhyrningur”. Hundurinn er ávallt hafður við vinstri hlið sýnanda. Hér er m.a. stöðugleiki hreyfinga skoðaður, fram- og afturskref ásamt yfirlínu á hreyfingu.
Ráð:
Hafðu taumhendina stöðuga, það hefur góð áhrif á hreyfingar hundsins
Passaðu hraða hundsins, hundurinn á að “brokka”
Veldu sýningartaum við hæfi
CIB ISCH Víkur Bob Marley
3. Feldur - húð - heilsa
Feldur tegundanna skiptir máli, en þó stundum mismiklu. Eitt skiptir þó ávallt máli er að feldurinn sé hreinn og í góðu ásigkomulagi. Mikilvægt er að húðin sé í góðu ásigkomulagi og að tennur, augu og eyru séu einnig hrein.
Ráð:
Fáðu ráð hjá ræktendum varðandi feldhirðu
Tímasetning sýningarbaðs getur skipt máli, sumar tegundir viljum við baða rétt fyrir sýningu, aðrar mögulega vikunni áður
Ef tegundinn er “feldtegund”, vertu tilbúin að sinna feldinum í hringnum til þess að viðhalda réttu útliti
Æfðu hundinn í að sýna tennur
Klipptu klær hundsins
4. Líkamlegt form
Líkamlegt form er mjög mikilvægt á sýningum, bæði holdarfar, vöðvaástand ásamt góðu þoli hundsins. Mikilvægt er að fylgjast með líkamlegu ástandi hundsins með góðum fyrirvara til þess að hundurinn sé vel undirbúinn.
Ráð:
Skoðaðu BCS stuðul hundsins, við viljum hafa hundinn á staðlinum 4-5 (á staðli 1-9)
Pössum að hita hundinn vel upp fyrir hringinn
Gott getur verið að æfa liðkandi æfingar og teygja varlega til þess að stuðla að vellíðan hundsins
Fylgjumst með vöðvaástandi hundsins og gætum þess að þeir séu lausir við eymsli og bólgur
ISJCh Norðanheiða Vök
Royal Canin - Body Condition Score
5. Skapgerð og tengsl við sýnanda
Skapgerð tegunda er lýst í tegundarstaðli þeirra, það getur því verið gott að kynna sér hvernig skapgerðin á að vera til þess að undirstrika hana þegar við á í tegundarhringnum. Sem dæmi: dillandi skott retriever hunda, alvarlegri terrier hundar, hlédrægnir fjárhundar.
Sumar tegundir eiga einnig að sýna vinnugleði og því er ýmislegt hægt að gera í sýningarhringnum til þess að undirstrika rétta skapgerð.
Ráð:
Hlúðu að umhverfisþjálfun hundsins til þess að tryggja vellíðan í áreiti
Leggðu tíma í þjálfun og samveru með hundinum, það skilar sér í sterkari tengslum
Kenndu hundinum skemmtileg trix til þess að gera ef það verður bið í hringnum
Mundu að leika við hundinn í hringnum!
THEODÓRA RÓBERTSDÓTTIR
Theodóra er dýrahjúkrunarfræðingur að mennt, aðaláhugasvið hennar liggur í næringu hunda og katta ásamt því að fyrirbyggja vandamál og sjúkdóma gegnum umönnun. Theodóra starfar hjá Dýrheimum við ráðgjöf tengda heilsu og næringu í Heilsutékki Dýrheima auk þess að halda fyrirlestra, einkatíma fyrir sýningar og sýnendanámskeið.