Við kveðjum hundaskóla Dýrheima

júlí 29, 2025 2 mínútur að lesa

Samfélagið okkar hefur blómstrað vel síðustu 4 ár en allt er breytingum háð. Mikilvægt er að Samfélagið sé sveigjanlegt og geti þróast og aðlagast eftir þörfum hverju sinni. Albert okkar er einn fremsti hundaþjálfari landsins og höfum við verið gríðarlega heppin að njóta þekkingar hans á sviði hundaþjálfunar síðustu árin. Nú eru hins vegar tímamót hjá Alberti og vegna persónulegra ástæðna hefur hann ákveðið að hætta kennslu og skipta um starfsvettvang.


Hundaskólinn hefur því lokað í þeirri mynd sem hann er í dag sem þýðir að nú er ekki lengur hægt að bóka ný námskeið eða einkatíma hjá Alberti.


Þau hvolpanámskeið sem eru nú þegar bókuð í ágúst verða haldin en kennari verður Theodóra Róbertsdóttir dýrahjúkrunarfræðingur en hún hefur mikla reynslu í þjálfun og umönnun hunda. Einkatímar og hlýðninámskeið falla því miður niður og verða endurgreidd.  


Við þökkum Alberti fyrir sérstaklega gott samstarf og frábæra kennslu síðustu ár. Albert mun þó áfram sinna ráðgefandi málum fyrir Dýrheima varðandi fræðslu um þjálfun til að tryggja miðlun þekkingar á sviði hundaþjálfunar með breyttu sniði.

Fræðslusetrið mun fá aukið vægi. Auk almennrar fræðslu um heilsu og næringu munum við efla fræðslusetrið með ýmsum fræðsluviðburðum, m.a. á sviði næringar, þjálfunar, sýninga, umhverfis, reksturs og fleira sem við teljum að geti gagnast okkar viðskiptavinum hvort sem það eru gæludýraeigendur, dýralæknar, verslanir eða ræktendur. Auk okkar sérfræðinga munum við fá gestafyrirlestra/kennara til okkar svo að fræðslan verði skemmtileg og sem fjölbreyttust.


Heilsutékkið mun fá aukinn styrk með fyrirhugaðri ráðningu dýralæknis til að við getum betur stutt við bakið á okkar samstarfsaðilum sem og viðskiptavinum þegar eitthvað bjátar á sem hægt er að meðhöndla m.a. með næringu.


Verslunin  verður á sínum stað þar sem áhersla er lögð á góða þjónustuupplifun, frábærar vörur og faglega ráðgjöf.


Kaffihúsið verður áfram hjarta Samfélagsins okkar þar sem gæludýraunnendur geta komið og slakað á, með eða án dýranna sinna. Við munum efla kaffihúsið í vetur og stefnum á að færa líf í föstudagana með auknum veitingum og samveru.


Fyrirspurnir berist á dyrheimar@dyrheimar.is.


Kveðja,
Dýrheima teymið

Albert og Góa með hluta af teymi Dýrheima
Albert og Góa með hluta af teymi Dýrheima