mars 17, 2025 3 mínútur að lesa
Meltingarkerfi katta er viðkvæmt og getur auðveldlega raskast ef matarræði þeirra eða umhverfi breytist skyndilega. Þetta á sérstaklega við um kettlinga sem eru á fyrstu vikum og mánuðum lífs síns, þar sem meltingarkerfi þeirra er enn að þroskast. Í þessari grein skoðum við hvernig melting virkar hjá köttum, hvað getur valdið niðurgangi og hvernig best er að bregðast við meltingarvandamálum, sérstaklega hjá kettlingum.
Melting katta byrjar í munni, þar sem þeir bryðja fæðuna og bleyta hana með munnvatni. Munnvatn katta inniheldur ekki ensím til að brjóta niður fæðuna eins og hjá mönnum, heldur er aðalhlutverk þess að auðvelda kyngingu. Þegar maturinn fer niður í magann, taka magasýrur við og brjóta niður fæðuna. Maginn framleiðir einnig ensím sem hjálpa til við meltingu og gera næringarefnin aðgengilegri fyrir frásog í smáþörmum.
Smáþarmarnir eru mikilvægasti hluti meltingarkerfisins hvað varðar upptöku næringarefna. Þar eru næringarefnin tekin upp í líkamanum.
Ristillinn sér um að taka upp vatn og mynda hægðir. Ef niðurgangur verður, er það oft merki um að ristillinn nái ekki að taka upp nægilegt vatn eða að meltingin hafi raskast af einhverjum ástæðum, svo sem vegna sýkinga, fæðuóþols eða sníkjudýra.
Þegar talað er um heilbrigðan meltingarveg er átt við meltingarveg með eðlilega slímhúð sem hefur færni til þess að taka upp og nýta næringarefni ásamt eðlilegum þarmahreyfingum. Heilbrigður meltingarvegur hefur áhrif á efnaskiptavirkni, ónæmiskerfi og taugaþroska dýrsins. Næring skiptir í þessu samhengi gífurlegu máli, en næring hefur mikil áhrif á heilbrigði meltingarvegar og jafnvægi hans. Breytingar á örverum í meltingu geta valdið meltingartruflunum sem leiðir til meira næmis fyrir flutningi baktería (góðra og slæmra), aukið næmni gegn mótefnavökum í næringu auk þess að hafa áhrif á ónæmiskerfi kattarins.
Niðurgangur getur komið fyrir af ýmsum ástæðum, þar á meðal:
Skyndileg breyting á fæðu – Magi katta er viðkvæmur fyrir breytingum í mataræði.
Sníkjudýr – Ormar og sníkjudýr geta valdið niðurgangi, sérstaklega hjá kettlingum.
Fæðuóþol eða ofnæmi – Kettir eru misviðkvæmir fyrir m.a. laktósa í mjólkurvörum.
Bakteríu- eða veirusýkingar – Líklegri hjá kettlingum með óþroskað ónæmiskerfi.
Stress og umhverfisbreytingar – Flutningur eða nýtt umhverfi getur valdið meltingarvandamálum útfrá streitu.
Koma í veg fyrir sníkjudýr með reglulegum ormahreinsunum.
Gefa gott fóður sem hentar aldri og þörfum kattarins.
Kynna nýja fæðu smám saman til að forðast meltingartruflanir.
Halda stressi í lágmarki og tryggja stöðugleika í umhverfi kattarins.
Ef kötturinn þinn fær niðurgang, er gott að fylgjast með almennri heilsu hans. Ef hann er annars hress og dregur sig ekki í hlé, er hægt að reyna eftirfarandi ráð:
Gefa honum auðmeltanlega fæðu, eins og sérhæft meltingarfóður.
Sé ætlunin að gera heimatilbúna lausn er nauðsynlegt að hún sé fullbúin þeim næringarefnum sem tapast sérstaklega við niðurgang.
Gæta að vökvainntöku til að forðast ofþornun, t.d. með blautmat.
Koma í veg fyrir að kettlingar neyti mjólkur eftir að þeir hætta að fá móðurmjólk, þar sem flestir kettir hafa laktósaóþol.
Ef niðurgangurinn varir lengur en 24-48 klukkustundir eða ef kötturinn sýnir merki slappleika, uppköst eða blóð í hægðum ætti að leita til dýralæknis tafarlaust.
Nánara lesefni:
Small Animal Gastroenterology, Jörg M. Steiner, 2008.
Small Animal Clinical Nutrition, 5th Edition.
https://www.msdvetmanual.com/cat-owners/digestive-disorders-of-cats/disorders-of-the-stomach-and-intestines-in-cats#Inflammatory-Bowel-Disease-(IBD)_v3243967
Theodóra er dýrahjúkrunarfræðingur að mennt og er með Award of merit í næringu smádýra frá BSAVA. Ásamt því er áhugasviðið að fyrirbyggja vandamál og sjúkdóma gegnum umönnun. Theodóra starfar hjá Dýrheimum við ráðgjöf tengda heilsu og næringu í Heilsutékki Dýrheima auk þess að halda fyrirlestra, einkatíma fyrir sýningar og sýnendanámskeið.