Of mikið af hinu góða? - Ofþyngd hunda

janúar 31, 2025 5 mínútur að lesa

Yfir 40% hunda og katta í heiminum eru í ofþyngd; af þeim er aðeins lágt hlutfall í raunverulegri meðhöndlun. 

Hvað er ofþyngd?

Ofþyngd/offita er í dag með algengari sjúkdómum sem herja á hunda, sem hægt er að fyrirbyggja. Offita er skilgreind sem uppsöfnun umfram líkamsfitu og er í dag talinn ólæknandi sjúkdómur sem krefst lífslangrar meðferðar. Þar sem slík umfram líkamsfita veldur aukningu á líkamsþyngd er hægt að nota þyngd sem stuðul í því mati hvort hundur sé í ofþyngd eða offitu. Auk þyngdar er notast við svokallaðan holdarfarsstuðul (body condition score). Þegar hundar eru um 10-15% yfir kjörþyngd teljum við þá í ofþyngd en umfram 20% eru þeir taldir vera í offitu. Slíkar skilgreiningar skipta máli þegar meðhöndlunarplan er útbúið og hvers konar eftirfylgni er þörf á.

Hvaða áhrif hefur ofþyngd á heilsu hunda?

Ofþyngd/offita er flókinn sjúkdómur sem kemur af völdum nokkurra þátta, m.a. vegna gena, umhverfis, efnaskipta, lífsstíls og heimilisaðstæðna. Afleiðingar sjúkdómsins eru fjölmargar, t.d. sjúkdómar á við liðagigt, sykursýki týpa 2, lungnavandamál, þvagfæra- og æxlunarfæravandamál/frjósemisvandamál o.s.frv. Rannsóknir hafa sýnt fram á aukin lífsgæði við þyngdartap eins og aukna virkni, meiri leikgleði, og minni verki vegna þyngdar. Einnig hafa áhrif ofþyngdar á lífaldur verið rannsökuð og getur ofþyngd/offita stytt lífaldur hunda um allt að tvö ár.


Hér koma nokkrir þættir sem geta ýtt undir ofþyngd/offitu: 

  • Ofát - of mikið magn hitaeininga innbyrðar t.d. með of miklu magni fóðurs, aukabitun, nagbein o.s.frv. 
  • Of lítil hreyfing
  • Sjúkdómar eins og t.d. vanvirkur skjaldkirtill, liðvandamál osfrv. 
  • Tegund, sumar tegundir hunda eru í hærri áhættuflokki fyrir ofþyngd mv. aðra hunda

Mikilvægt er að horfa gagnrýnum augum á heilsu hundanna okkar til þess að tryggja heilbrigt og gott líferni. 


Hvernig metum við holdarfar?

Til þess að meta holdarfar þarf að skoða nokkra þætti sem spila saman og gefa réttari mynd en eingöngu vigtin sjálf. 


Meðal þess sem er skoðað: 

  • Þyngd
  • BCS (body condition score) - hundurinn er þreifaður
  • MCS (muscle condition score) - hundurinn er þreifaður
  • Mælingar á hálsi, brjóstkassa og kvið eftir þörfum

Skoða BCS (holdarfarsstuðull) mælingar HÉR. 

Almenna reglan sem gott er að hafa í huga er að auðvelt sé að finna rifbein hundsins án þess að hægt sé að leggja fingur milli þeirra, sjáanlegt mitti sé á hundinum og kviðurinn örlítið dreginn upp. 

Heilbrigðar venjur

"Heilbrigð þyngd byrjar á heilbrigðum venjum"


Með heilbrigðum venjum frá upphafi má með góðu móti fyrirbyggja ofþyngd. Í tilfellum þar sem hundurinn okkar er  í ofþyngd geta breyttar venjur og matarræði hjálpað okkur að koma hundinum aftur í sitt besta form. 

  • Holdarfarsstuðull (body conditioning score)
  • Regluleg vigtun
  • Þreifa reglulega yfir rifbein og mjaðmir
  • Fjölbreytt hreyfing
  • Viðeigandi fjölbreytt hreyfing strax frá hvolpsaldri
  • Þyngdarkúrvur hvolpa (sjá HÉR). 

Fóðrun: 

  • Aðlaga fóðurmagn miðað við lífsstíl 
  • Minnka almennan fóðurskammt ef t.d. blautfóður er gefið með 
  • Nýta matarskammta í afþreyingu og þjálfun í stað hefðbundinna matardalla
  • Nota hluta af fóðurskammt við þjálfun
Góa í vigtun

þekkirðu orkuþörf hundsins þíns?

Orkuþörf hunda er breytileg eftir mörgum þáttum, svo sem stærð, aldri, kyni, virkni og heilsufari. Hún ræðst af grunnorkuþörf líkamans (e. Resting Energy Requirement, RER), sem er sú orka sem líkaminn þarf til að viðhalda grunnstarfsemi, eins og hjartslætti, öndun og hitastjórnun, þegar dýrið hvílir.


Fleiri þættir spila inn í heildarorkuþörf hundsins. Virkir hundar, til dæmis vinnuhundar eða hundar sem æfa reglulega, þurfa meiri orku en þeir sem lifa rólegri lífsstíl. Einnig þarf að taka tillit til þyngdar og holdafars; hundar í ofþyngd þurfa að fá færri hitaeiningar til að léttast, á meðan grannir hundar þurfa fleiri hitaeiningar. Aldur spilar einnig stórt hlutverk þar sem hvolpar og unghundar þurfa meira magn næringarefna ásamt meiri orku fyrir vöxt, en eldri hundar þurfa oft minna vegna hægari efnaskipta.


Til að reikna út grunnorkuþörf hunds er hægt að nota formúluna:

70 × (þyngd í kg^0,75) = RER (kcal/dag)


Þetta gefur grunnorkuþörfina, en heildarorkuþörfin (e. Maintenance Energy Requirement, MER) fer eftir lífsstíl og þarfir hundsins og er reiknuð með því að margfalda RER með ákveðnum stuðli. Til dæmis gæti stuðull fyrir venjulega virka hunda verið á bilinu 1,4–1,8, á meðan mjög virkir hundar þurfa stuðul upp á 2 eða meira.

Með því að skilja og fylgjast með orkuþörf hundsins getum við betur aðlagað mataræði hans og stuðlað að heilbrigðu líkamsástandi og góðri líðan.


Ef við tökum dæmi um grunnorkuþörf 20kg rakka þá væri hún:

70 × (20 kg^0,75) = RER (kcal/dag) = 662 kcal


Hundurinn er í meðalhreyfingu og í heilbriðgu formi. Þá margföldum við heildarorkuþörf með 1,8 sem gerir heildarorkuþörf upp á 1.191 kcal á dag. 


Hundurinn borðar Royal Canin Medium adult skv. ráðleggingum á umbúðum sem gera: 310gr á dag. Sá fóðurskammtur mætir nákvæmlega orkuþörfum hundsins. 


Bætum svo inn í reikninginn að hann fær 1 nagbein á dag - 190gr húðbeini. Veist þú hvaða áhrif það hefur á heildar hitaeiningatinntöku hundsins?


Lúmsk áhrif aukabita

Ef hundurinn þinn er í ofþyngd/offitu er mikilvægt að aðlaga fóðurskammta sérstaklega og nota sérstakt fóður fyrir þyngdartap sé hundurinn á BCS stuðullinn >5/9. Það er EKKI viðeigandi í tilfellum offitu að minnka skammta þar sem það getur til lengri tíma valdið vannæringu. 


Sé hundur kominn í mikla ofþyngd/offitu getur verið gott að ráðfæra sig við fagaðila eins og t.d. dýralækni eða dýrahjúkrunarfræðing varðandi sérstaklega útreiknaða skammtastæðir. 


Dæmi um hitaeiningaríka algenga aukabita:

  • Nagbein (190g) - 699 kcal - 67% af ráðlögðum dagskammti*
  • Þurrkað svínseyra (50g) - 216 kcal - 21% af ráðlögðum dagskammti*
  • Cheddar ostur (60g) - 242 kcal - 23% af ráðlögðum dagskammti*
  • Lifrarpylsa (100g) - 305 kcal - 29% af ráðlögðum dagskammti*

*Ráðlagður dagskammtur miðað við uþb. 20kg hund. 


Þegar hundur er komin í ofþyngd er hann búinn að vera að innbyrða meira af hitaeiningum en æskilegt er og til þess að ná þyngd niður þarf að senda hundinn í svokallað “neikvætt” orkuástand svo að þyngdartap geti farið fram. 

Afhverju sérstakt megrunarfóður?

Megrunarfóður tryggir að hundurinn innbyrði nauðsynleg næringarefni með færri hitaeiningum en er í almennu viðhaldsfóðri. Fóðrið inniheldur minna magn fitu og meira magn trefja en almennt er til þess að stuðla að aukinni seddutilfinningu hundsins. 


Almennt megrunarfóður ætti að nota fyrir hunda með BCS 5-6 eða í kringum 15% of þungir. Séu hundarnir þyngri en það er ráðlagt að velja sjúkrafóður. 

Hvenær er þörf á sjúkrafóðri?

Þegar hundar eru með BCS 7-9 eða yfir 20% of þungir er þörf á enn færri hitaeiningum til þess að skapa “neikvætt” orkuástand svo þyngdartap geti átt sér stað. Nauðsynlegt er að það sé gert með sjúkrafóðri til þess að koma í veg fyrir vannæringu hundanna. 


Við þyngdarstjórnun er alla jafna gott að nota bæði þurrfóður og blautfóður (ath. að stilla þarf skammtastærðir í samræmi við það). Kostir blautfóðurs í slíkum tilfellum eru aukið fóðurmagn með færri hitaeiningum sem skilar meiri seddutilfinningu. Frábært er að nota blautfóðrið í svokallaða “slow-feeder” dalla eða sleikimottur til þess að auka andlega örvun og hægja á fæðuinntökunni. 

Grunnmat - Heilsutékk Dýrheima


Hægt er að bóka tíma í grunnmat og næringarráðgjöf hjá Theodóru til þess að fá sérhæft matarplan fyrir hundinn þinn. 


- Grunnskoðun hjá dýrahjúkrunarfræðingi

- Dýr vigtað 

- Klær klipptar

- Ráðgjöf varðandi hreyfingu og/eða heilsu dýrsins 

- Næringarráðgjöf eftir þörfum

 

Eigandi fær skýrslu sendaá netfang sitt eftir skoðunina með upplýsingum úr heilsutékki á sínu dýri ásamt áætlun/ráðleggingu varðandi þjálfun á hlaupabretti ef þess er óskað. 

 

Áætlaður tími u.þ.b. 40 mín.  

Theodóra, dýrahjúkrunarfræðingur

THEODÓRA RÓBERTSDÓTTIR

Theodóra er dýrahjúkrunarfræðingur að mennt og er með Award of merit í næringu smádýra frá BSAVA. Ásamt því er áhugasviðið að fyrirbyggja vandamál og sjúkdóma gegnum umönnun. Theodóra starfar hjá Dýrheimum við ráðgjöf tengda heilsu og næringu í Heilsutékki Dýrheima auk þess að halda fyrirlestra, einkatíma fyrir sýningar og sýnendanámskeið.