Tanntaka hvolpa og kettlinga - Vegferð frá mjólkurtönnum yfir í fullorðinstennur

janúar 31, 2024 2 mínútur að lesa

Breytingin frá svokölluðum mjólkurtönnum ungviða yfir í fullorðinstennur kallast tannskipti og er stórt skref í líkamlegum þroska hvolpa og kettlinga. Tannskiptin eiga sér yfirleitt stað þegar ungviðin eru milli 3-7 mánaða.

Cavalier hvolpur

Mjólkurtennur - Fyrstu tennurnar

Ungviði fæðast án allra sjáanlegra tanna. Mjólkurtennur byrja að koma niður úr góm ungviðisins um þriggja vikna aldur og eru alfarið komnar niður milli 6-8 vikna. Kettlingar fá 26 "kettlingatennur" á meðan hvolpar fá 28 "hvolpatennur".

Fæðuinntaka ungra hvolpa og kettlinga

Fyrsta fæða ungviðisins er alla jafna móðurmjólk eða staðgengill hennar. Við 3-4 vikna aldur byrjar sjálfstæðari fæðuinntaka gegnum bleytt fóður eða blautmat sem gerir ungviðinu kleift að æfa sig í að sleikja fæðuna og upp. Fyrstu tennurnar fá því nægan tíma til að koma niður og dafna áður en þær koma til notkunar. Við 6-7 vikna aldur fara ungviðin að prófa sig áfram með þurrfóður og nota tennurnar því loksins! 

Hvenær koma fullorðinstennur?

Tannskipti kettlinga geta byrjað  í fyrsta lagi um 10 vikna aldur og staðið yfir til um 6 mánaða aldurs. Þegar kettlingur hefur náð 6-7 mánaða aldri eru yfirleitt allar 30 fullorðinstennurnar komnar niður. Tannskipti hvolpa geta byrjað frá 3ja mánaða aldri og staðið til 6-7 mánaða aldurs þar til allar 42 fullorðinstennurnar eru komnar, en stærð hundsins á fullorðinsárum getur haft áhrif á það hversu gamall hvolpurinn er þegar tannskiptum lýkur. 

Lystarleysi í tannskiptum

Tanntökuferlið getur verið óþægilegt þar sem ungviðið gæti slefað, orðið lystarlaust, verið pirrað og klæjað í góminn. Því er mikilvægt að gera ráðstafanir til þess að uppfylla nagþörf ungviðisins svo að óþarfa hlutir verði ekki fyrir skemmdum á tímabilinu. Gott getur verið að gefa eitthvað kalt eins og t.d. kaldar gulrætur eða frysta kaðla. Einnig getur verið gott að eiga til mild nagbein fyrir hvolpana, þá er mikilvægt að þau séu ekki of hörð til þess að skemma ekki tennur hvolpsins. Við val á nagbeinum skal hafa í huga að þau séu eins mild og hægt er fyrir meltingu hvolpsins.

Hverju þarf að fylgjast með?

Mikilvægt er að fylgjast með hvort allar mjólkurtennur falli örugglega úr, en það kemur fyrir að mjólkurtennur sitji eftir og slíkt getur haft áhrif á eftirstandandi fullorðinstennur ungviðisins. Dýralæknir getur aðstoðað ykkur við að meta tannheilsu ungviðisins og hvenær þörf er á að grípa inn í tannskiptaferlið. 

British Shorthair kettlingur
THEODÓRA RÓBERTSDÓTTIR

Theodóra er dýrahjúkrunarfræðingur að mennt og er með Award of merit í næringu smádýra frá BSAVA. Ásamt því er áhugasviðið að fyrirbyggja vandamál og sjúkdóma gegnum umönnun. Theodóra starfar hjá Dýrheimum við ráðgjöf tengda heilsu og næringu í Heilsutékki Dýrheima auk þess að halda fyrirlestra, einkatíma fyrir sýningar og sýnendanámskeið.