Fóðrun katta - ráðleggingar um hvað þarf að hafa í huga við val á fóðri

desember 13, 2023 4 mínútur að lesa

Fóðrun katta

 

Kettir þurfa heilfóður í góðu jafnvægi, ætlað lífsstigi og lífsstíl kattarins. Þar spilar aldur, tegund og efnaskiptaástand dýrsins stóran þátt (er búið að gelda dýrið?) ásamt því að hafa áhættuþætti í huga varðandi sjúkdóma. Gott er að ráðfæra sig við fagaðila eins og dýralækni eða dýrahjúkrunarfræðing varðandi fóðrun kattarins til þess að meta einstaklingsþarfir og heilbrigði. Heilnæmt matarræði ásamt reglulegri hreyfingu og fyrirbyggjandi umönnun getur stutt við almenna heilsu og langlífi kattarins. 

Fóðrið inniheldur orku og næringarefni til þess að viðhalda eðlilegri líkamsstarfsemi. Orkan er alla jafna mæld í kaloríum (kcal) sem er mikilvægt í þeim tilgangi að hvorki offóðra né fóðra köttinn of lítið, en hvoru tveggja getur valdið sjúkdómssástandi. 

1. Aldur kattarins

Kettlingar 0-12 mánaða

 • Kettlingar eru að vaxa hratt og þurfa á kettlingafóðri að halda þetta tímabil
 • Geldir kettlingar geta verið á fóðri fyrir gelda kettlinga til að stuðla áfram að heilbrigðum vexti en dragar þó úr áhættu á ofaukinni þyngdaraukningu

Fullorðnir kettir 1-6 ára

 • Þurfa á almennu fullorðinsfóðri að halda ætluðu fullorðnum heilbrigðum köttum
 • Fóðurval fer eftir lífsstíl, heilsu og einstaklingsþörfum

Eldri kettir  7+ ára

 • Hér minnkar fosfór þörf kattarins smám saman 
 • Auknin þörf á magni andoxunarefna til þess að dragar úr öldrunaráhrifum á frumur kattarins

Öldungar 12+ 

 • Matarlyst minnkar gjarnan á þessum aldri og vöðvar byrja að rýrna 
 • Nauðsynlegt að draga úr magni fosfórs gegnum næringu til þess að minnka álag á nýru
Kettlingur
Kettlingur alinn upp á Royal Canin

2. Lífsstíll

Mikill virknimunur getur verið á útiköttum og inniköttum, innikettir hafa meiri tilhneygingu til kyrrsetur og rólegs lífs á meðan útikettir hreyfa sig alla jafna meira, stunda veiðar og svala forvitni um umhverfi sitt. Þessi munur hefur áhrif á hitaeiningaþörf kattanna ásamt prótein- og trefjaþörf. 


Mismunandi lífsstílar: 

 • Inniköttur
  • Færri hitaeiningar
 • Útiköttur
  • Meiri orkuþörf
  • Veiðir mikið? - Ekki jafn mikil orkuþörf til viðbótar
 • Blandað - útivera takmörkuð að einhverju leyti

Mikilvægt er að taka mið af heilsu og holdarfari kattarins í takt við lífsstíl þegar hugað er að fóðurvali. 

Útiköttur
Alin upp á Royal Canin Kitten, svo Kitten sterilised og nú Hair&Skin. 

3. Næringarefnin

Prótein er uppbyggingarefni líkama kattarins þíns. Amínósýrurnar úr próteininu geta svo verið umbreytt yfir í glúkósa og er nauðsynlegt fyrir virkni heila, nýrna, rauðra blóðfrumna og svo lengi mætti telja. Þó er ekki magn próteina sem skilgreinir gæði þeirra því nauðsynlegt er að próteinin séu auðmeltanleg og auðnýtanleg til þess að auðvelda meltingarveginum starfsemi sína og koma í veg fyrir óþarfa kvilla. Meðal þeirra 11 nauðsynlegra amínósýra sem kettir þurfa er t.d. tárín en það verður að fást úr fæðu kattarins.


Fita er auk þess mikilvægur orkugjafi kattarins en í inniheldur um tvöfalt fleiri hitaeiningar. Ráðlagt magn fitu í fóðri er því misjafnt eftir aldri og lífsstíl kattarins. 


Kettir þurfa ekki kolvetni á sama hátt og við mannfólkið, en kolvetni eru þó góður orkugjafi sem kettir geta melt á góðan hátt ásamt því að veita trefjar í fóðrinu. Trefjar hafa almennt góð áhrif í að fyrirbyggja hárbolta í meltingarvegi ásamt því að styðja við náttúrulegar þarmahreyfingar. 


Í eldri köttum er mikilvægt að draga smám saman úr magni fosfórs í fæðunni og ættu því eldri kettir að vera á fóðri fyrir viðeigandi aldur. 

Næringarefnin

4. Sjúkdómar

Hér koma nokkrir sjúkdómar í köttum þar sem næring getur spilað þátt í að bæta heilsu og vellíðan kattarins. 


Ofþyngd 

 • Stórt hlutfall katta er í ofþyngd en ofþyngd eykur áhættu á fjölda sjúkdóma eins og t.d. gigt, sykursýki, háum blóðþrýstingi og ákveðnum tegundum krabbameina. Góð þyngdarstjórnun gegnum næringu og hreyfingu er því lykilatriði. 

Sykursýki

 • Sykursýki í köttum má í fjölda tilfella snúa til baka með meðhöndlun, þyngdarstjórnun og næringu. Mikilvægt er að fóðrið sé ríkt af gæða trefjum sem hægja á glúkósasveiflum líkamans. 

Þvagfærasjúkdómar (FLUTD) 

 • Fjöldi sjúkdóma fellur hér undir, en dýralæknar vinna að því að greina orsök þvagfæravandamála og meðhöndla með bæði réttri næringu og lyfjum ef þörf er á. Dæmi um fóður er t.d. Calm, Urinary S/O, Weight managment. 

Húð- og feldur

 • Næring sem er rík af hágæða nýtanlegum próteinum/amínósýrum, fitusýrum og vítamínum getur stuðlað að heilbrigðri húð og feld fullum af gljáa.

5. Nokkur ráð

 • Tryggðu aðgang að fersku vatni
 • Haltu vatns- og matarskálum hreinum
 • Kettir kjósa yfirleitt frekar grunnar skálar 
 • Ef kötturinn vill - bjóddu gjarnan upp á blautfóður af og til með þurrfóðri, það styður við aukna vökvainntöku
 • Haltu vatns og matarskálum aðskildum, kettir kjósa nefninlega yfirleitt að það sé ekki of nálægt hvoru öðru 
 • Fylgstu með þyngd kattarins reglulega og fáðu dýralækninn þinn til að aðstoða við að meta holdarfar kattarins til að fyrirbyggja sjúkdóma
Fóður og vatn
Theodóra, dýrahjúkrunarfræðingur
THEODÓRA RÓBERTSDÓTTIR

Theodóra er dýrahjúkrunarfræðingur að mennt og er með Award of merit í næringu smádýra frá BSAVA. Ásamt því er áhugasviðið að fyrirbyggja vandamál og sjúkdóma gegnum umönnun. Theodóra starfar hjá Dýrheimum við ráðgjöf tengda heilsu og næringu í Heilsutékki Dýrheima auk þess að halda fyrirlestra, einkatíma fyrir sýningar og sýnendanámskeið. 

Tengdar greinar