10 ára afmæli Villikatta í sal Dýrheima

október 14, 2024 2 mínútur að lesa

"fjölmennt var á 10 ára afmælishátíð villikatta sem haldin var á laugardaginn 12. október"

Afmæliskakan
Afmæliskakan glæsileg

Afmæli Villikatta

Laugardaginn 12. október var haldið hátíðlega upp á 10 ára afmæli Villikatta í húsakynnum Dýrheima. Viðburðurinn vakti mikla athygli og fjölmennt var á viðburðinn til að fagna starfsemi félagsins, sem hefur unnið ötullega að því að bjarga heimilislausum köttum síðasta áratuginn.


Afmælishátíðin var ekki aðeins tilefni til að fagna, heldur líka tækifæri fyrir gesti til að kynnast starfsemi þeirra. Boðið var upp á afmælisköku, ásamt fræðslu um allt sem við kemur köttum. Gestir gátu sest niður á kaffihúsi Dýrheima og fengið sér kaffi með kökunni.


Jacobina Joensen, formaður félagsins, setti hátíðina og  þakkaði í ræðu sinni fyrir þann stuðning sem félagið hefur fengið undanfarin ár. Á staðnum voru kynningar á kisum sem leita nýrra heimila og gátu gestir spjallað við sjálfboðaliða, atferlisfræðinga, dýralækna og næringarfræðinga. Nokkrir fyrirlestrar voru á dagskrá viðburðarins en meðal fyrirlesara voru sérfræðingar sem veittu gagnleg ráð um umönnun katta. Theodóra okkar hélt fyrirlestur um næringu katta, Hrund dýralæknir hélt kynningu á mikilvægi geldinga og tannumhirðu katta og Arndís Björg fyrrum formaður og einn af stofnendum Villikatta fór yfir sögu félagsins. 


Sérstök áhersla var lögð á að kynna gestum hvernig hægt er að hjálpa köttum í neyð, hvort sem það er með því að veita þeim tímabundið fósturheimili eða styðja starfsemi félagsins á annan hátt.


Á viðburðinum var eitthvað fyrir alla en yngri gestir fengu einnig sinn skerf af skemmtun, þar sem andlitsmálun með kisuþema var í boði. Þetta vakti mikla lukku hjá börnunum og gerði daginn ennþá eftirminnilegri. Viðburðurinn var ótrúlega vel heppnaður og gaman að sjá hve margir hafa áhuga á starfi Villikatta.

Afmælisblöðrur
Theodóra

Saga Villikatta

Félagið Villikettir var stofnað snemma árs 2014 en það hefur undanfarin 10 ár, staðið vörð um dýravernd fyrir villta ketti á Íslandi. Félagið hefur verið mikilvægur hlekkur í því að veita villiköttum og heimilislausum köttum bjargir með því að að fanga, hlúa að og finna framtíðarheimili fyrir villiketti. Markmið félagsins er meðal annars að kortleggja helstu búsetusvæði villikatta á Íslandi, bæta aðstöðu þeirra eins og kostur er og stuðla að því að skerpt verði á lagalegum réttindum villakatta. Villikettir hafa á 10 árum byggt upp sterkt samfélag og starfsemi sem snýst um að bjarga og vernda villiketti.

Mýsla
Theodóra

Royal Canin kattafóður fyrir öll aldurskeið og lífstíl

Fleiri áhugaverðar fréttir og greinar